154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[18:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir kynninguna. Mig langar til að beina þremur spurningum til ráðherra að sinni, ég vona að ég komi þeim öllum fyrir. Í þingsályktunartillögunni kemur m.a. fram hvað varðar mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar, að áfram verði lögð áhersla á mannúðaraðstoð og störf í þágu friðar. Með leyfi forseta:

„Störf Íslands verði unnin í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga og alþjóða- og mannúðarlög og samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og grundvallarreglum um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði.“

Og hér segir síðar:

„Íslensk stjórnvöld beini stuðningi sínum áfram til ríkja í Miðausturlöndum og í Afríku sunnan Sahara samkvæmt stefnumiðum í mannúðaraðstoð sem veiti nánari ramma um starfið.“

Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra sé sammála mér um að það sé almennt vænlegra til árangurs að skrúfa fyrir lekann en þurrka sífellt upp, bara svona almennt í lífinu þegar við erum að kljást við einhvers konar leka. Þess vegna ætla ég að þessi spurning eigi erindi inn í þessa umræðu sem er hvort utanríkisráðherra telji það ekki vera hluta af þessari mannúðaraðstoð og störfum í þágu stöðugleika friðar að vera ekki að ýta ekki undir átök heldur einmitt að reyna að koma í veg fyrir þau og stöðva þau. Og þá langar mig að beina spurningum til hæstv. ráðherra, með hvaða hætti hann hyggst beita sér fyrir hönd Íslands, ekki síst í ljósi þingsályktunar, sem var samþykkt hér fyrir stuttu, til þess að stöðva árásir Ísraelshers á palestínska borgara. Telur utanríkisráðherra koma til greina að beita einhvers konar viðskiptaþvingunum í þessum tilgangi?

Önnur spurning sem mig langar til að beina til hæstv. ráðherra varðar það sem kemur hér fram um að íslensk stjórnvöld leggi sérstaklega áherslu á m.a. verndun og bætt lífskjör fólks á flótta. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þá stefnu Íslands, sem er ekki knúin af einhverjum skyldum okkar samkvæmt alþjóðasamstarfi, (Forseti hringir.) að senda flóttafólk, viðurkennda flóttamenn, til Grikklands, Ítalíu, Ungverjalands og annarra ríkja, (Forseti hringir.) hvort hæstv. ráðherra telji þetta í samræmi við þá stefnu sem hann kynnir hér? — Ég geymi þriðju spurninguna fram að seinna svari.