154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[18:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að hann hafi svo sem ekki svarað spurningu minni. Ég ætla að endurtaka fyrri spurninguna sem var: Með hvaða hætti hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir hönd Íslands til að stöðva árásir Ísraelshers á palestínska borgara og telur hann viðskiptaþvinganir koma til greina í þeim efnum? Ég held reyndar að hæstv. ráðherra hafi svarað spurningu minni varðandi verndun og bætt lífskjör fólks á flótta og ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, ég býð honum hér með að leiðrétta mig, þá er hann af heilum hug reiðubúinn að aðstoða fólk og hjálpa því einhvers staðar annars staðar, svo lengi sem það er einhvers staðar annars staðar. Ef fólk leitar hingað þá gilda önnur viðmið og viðmið um verndun og bætt lífskjör fólks á flótta eiga ekki við.

Þá langar mig að beina þriðju spurningunni til hæstv. ráðherra sem varðar markmið um 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu, sem hér kemur fram að við styðjum sem framlag til opinberrar þróunarsamvinnu. Þetta hefur komið fram áður. Þetta hefur verið um árabil í þessari áætlun. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að nú er þessi tala 0,35%, ef mér skjöplast ekki: Hvað er átt við með því að við styðjum þessa tölu, 0,7%, þegar það er í sjálfu sér ekkert sem bendir til þess að við ætlum okkur að verja þeim fjármunum til þróunaraðstoðar?