154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[18:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi tala endurspeglar vilja þingsins. Verði þingsályktunartillagan samþykkt þá endurspeglar hún þá stefnu sem íslensk stjórnvöld vilja, styðja með sérstökum stuðningi Alþingis til að auka við framlög sín þannig að þau geti haldið í við þann mikla vöxt landsframleiðslunnar sem hefur hér verið. En að öðru leyti þá finnst mér í raun og veru þessi nálgun hv. þingmanns ekki svaraverð. Og ætla að koma hingað upp og halda því fram, í ljósi þess hvernig við höfum byggt upp málaflokk hælisleitenda á Íslandi þar sem við verjum 15 milljörðum á ári hér heima fyrir (ArnG: Ekki hérna.) í að taka fyrir þessi mál, flokka þau rétt, fara vel með (ArnG: Koma fólki úr landi.) og koma þeim sem eiga rétt á aðstoð í skjól og hjálpa þeim við að aðlagast landinu, að koma hér upp og halda því fram að ég hafi engan áhuga á því sem ráðherra í ríkisstjórn að fylgja þeim alþjóðlegu skuldbindingum og lögum og reglum sem um þetta efni gilda — þetta er bara ómerkilegt í mínum huga, ekkert annað. Svo getur hv. þingmaður verið þeirrar skoðunar að við eigum að taka við öllum flóttamönnum í heiminum. Mér heyrist það vera kannski nálgunin, að það eigi bara allir sem sækja um að fá samþykkt, alveg óháð því hvaða lög og reglur gilda um efnið. Hv. þingmaður getur þá bara talað fyrir því og svo skulum við sjá hvernig úr því spilast í framhaldinu. (ArnG: Viðskiptaþvinganir.)

Varðandi frekari aðgerðir íslenskra stjórnvalda þá munum við halda áfram með þann málflutning sem við höfum haft. Það er ekki til skoðunar á þessum tímapunkti að fara að beita viðskiptaþvingunum eða öðrum slíkum úrræðum vegna átakanna sem eru fyrir botni Miðjarðarhafs. Okkar aðaláhersla á þessum tímapunkti er að það verði dregið úr spennunni, að átökin verið stöðvuð og mannúðaraðstoð komi til þeirra sem eru í neyð.