154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[18:19]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028, sem hafi framtíðarsýn til ársins 2030, kemur fram að hún byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sömuleiðis Parísarsamkomulaginu um aðgerðir til að takast á við og bregðast við loftslagsbreytingum og öðrum alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt, auk alþjóðlegra skuldbindinga um fjármögnun þróunar.

Þá er undirstrikað að Ísland leggi mannréttindi til grundvallar stefnu sinni, setji jafnrétti kynjanna og réttindi barna í öndvegi og styðji við berskjaldaða hópa, þar á meðal hinsegin fólk og fatlað fólk. Þróunarsamvinna Íslands endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Ísland hefur sýnt gott fordæmi í sinni þróunarsamvinnu og hvernig við beitum okkur milliliðalaust til þeirra sem aðstoðinni er beint að í vel skilgreindum verkefnum með skýr markmið. Það gerum við og eigum að gera með uppbyggilegum hætti og af virðingu fyrir samfélagi og menningu þeirra þjóða sem við vinnum með en um leið með mjög mikið vægi kynjajafnréttis og bættrar stöðu berskjaldaðra hópa að leiðarljósi. Í því sambandi vil ég sérstaklega, sem og þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, minna á mikilvægi þess að skoða sérstaklega stöðu hinsegin fólks og fatlaðs fólks í þróunarsamvinnuverkefnum. Eins vil ég undirstrika mikilvægi þess að framlög til loftslagsverkefna teljist inni í loftslagsbókhaldi Íslands. Íbúar margra landa búa við afar slæmar aðstæður og álag vegna sjúkdóma, veikra innviða, átaka og skorts á fullnægjandi matvælaöryggi og fæðuöryggi. Á þetta ekki síst við um mörg ríki Afríku, ríki sem eru háð þróunaraðstoð og þurfa sárlega á óskertri og meiri aðstoð að halda.

Að þessu þurfum við Íslendingar sérstaklega að hyggja í yfirferð okkar á aðstoð og á hverju sé mest þörf, hvar við getum orðið sem mest að liði. Margar þjóðir búa við hörmungar, matvælaskort og enn meiri þrengingar yfirvofandi. Þá leggst víða þungt á fólk enn meiri dýrtíð vegna stríðsátaka og innrásar í Úkraínu. Enn sér ekki fyrir endann á áhrifum átaka sem hafa verið að brjótast út á fleiri svæðum og þeim hryllingi sem því fylgir. Mörg þróunarlönd eru háð matvælasendingum og kaupum frá nú stríðshrjáðum svæðum. Þá er viðbúið að mörg vestræn ríki, þar með talið þau sem hafa veitt hvað mest í þróunaraðstoð, veiti aukna fjármuni í annað, ekki öllu vel varið tengt þeirri vargöld og yfirgangi sem við horfum því miður upp á nú. Það er mikilvægt að það gerist ekki á kostnað þróunaraðstoðar á tímum þegar fólkið sem byggir þessi lönd og þarf svo sárlega á aðstoð að halda upplifir viðkvæmari tíma fyrir afkomu sína og framtíð en verið hefur lengi. Þá höfum við gefið í, og eigum að gera enn frekar, að veita mannúðaraðstoð til fólks sem þarf sannarlega mest á henni að halda.

Í fyrirliggjandi tillögu sem beinist sérstaklega að þróunarsamvinnu í þeim ríkjum sem við höfum einbeitt okkur hvað mest að er unnið með okkar sérþekkingu, styrkleika og hvernig við getum orðið sem best að liði. Það er mikilvægt að við skerpum á stefnu okkar og verkefnum og því verði fylgt eftir með afgerandi hætti, bæði með fjárframlögum en einnig eftirfylgni með því að aðstoðin skili sér þangað sem henni er ætlað.