154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[18:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir ágæta umræðu um þessa þingsályktunartillögu og mér finnst mikilvægt að það sé góður samhljómur í þinginu um þessi helstu áhersluatriði. Það eru kannski nokkrir punktar, nokkur atriði sem ég myndi vilja koma að undir lokin.

Það má kannski fyrst taka það fram að við höfum margar leiðir til að styðja við fólk á flótta og eitt af því sem við höfum gert, fyrir utan þau framlög sem hafa farið sérstaklega til palestínsku flóttamannaaðstoðarinnar, er að styðja við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þess má að sjálfsögðu geta hér vegna umræðunnar sem hér fór fram áðan að móttaka flóttamanna á Íslandi er ekki á forræði utanríkisráðuneytisins.

Eins er ágætt að taka það fram að þegar við viljum beita okkur á alþjóðavettvangi og velta fyrir okkur hvort við Íslendingar ættum að taka upp í einstaka tilvikum einhvers konar þvingunaraðgerðir þá hefur það nú verið þannig í sögunni að við höfum átt samstarf sérstaklega við Evrópuríkin um slíka hluti og höfum einkum átt samstarf við á undanförnum árum Evrópusambandið og önnur bandalagsríki, t.d. vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Ég kannast ekki við að við höfum verið sem sjálfstætt ríki að setja ein og sér þvingunaraðgerðir til að koma okkar skilaboðum á framfæri eða berjast fyrir einhverjum tilteknum málstað. Ég þekki ekki dæmi þess. Ég þekki ekki til þess að það hafi komið til umræðu á vettvangi Evrópusambandsins t.d. að leggja á viðskiptaþvinganir vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Við höfum hérna í þessari umræðu aðeins verið að ræða framlögin og ég tók þau sérstaklega fyrir í minni framsögu. Það er vel skiljanlegt að því sé velt upp hvaða sérstöku þýðingu það hafi að hækka markmiðin þegar okkur gengur svona tiltölulega hægt að ná fyrri markmiðum. En ég held að það hafi samt sem áður þýðingu. Ég held að það felist í því ákveðin viljayfirlýsing og skuldbinding að taka slíka áætlun til umræðu á þinginu og fá hana samþykkta. Í fyrsta lagi er mikilvægt að vera með langtímaáætlanir um aukin framlög og í annan stað er þá komið eitthvert viðmið til að mæla sig við og spyrja spurninga og ganga eftir því að menn fylgi því eftir sem áður hefur verið ákveðið. Það væri lítill metnaður fólginn í því að viðhalda lágu framlagi í stefnumörkuninni en segja síðan að við ætluðum bara að reyna að gera betur í framkvæmd. Ég held að þetta sé rétt stefna þess vegna og það sé orðið tímabært að horfast í augu við að það eru mjög mörg ár liðin síðan að við færðum viðmiðið upp í 0,35% og það sé vel tímabært á þessu áætlunartímabili að lýsa því yfir að við viljum gera meira og gera betur.

Ef við lítum til baka þá eru bara örfá ár síðan að við vorum í ríkisfjármálasamhenginu komin í það fína stöðu, sérstaklega hvað skuldirnar snerti, með ágætisjafnvægi í ríkisfjármálunum, að það mátti vel sjá fyrir að við gætum á áætlunartímabilinu hækkað framlögin. En síðan lendum við í heimsfaraldrinum sem hefur dregið dilk á eftir sér og hin ýmsu ytri skilyrði hafa versnað. Verðbólga hefur vaxið, við, höfum séð 14 vaxtahækkanir og stóraukinn þrýsting hér á móttöku flóttamanna til landsins þannig að það er algerlega gjörbreytt umhverfi hvað marga undirliggjandi þætti snertir.

Þá vík ég kannski aðeins að því hvernig við förum með framlög til móttöku flóttamanna á Íslandi í samhengi við framlög okkar til þróunaraðstoðar. Þarna höfum við verið að nota alþjóðleg viðmið. Við höfum sem sagt aðlagað okkur að aðferðafræði sem byggir á tilmælum þróunarsamvinnunefndar OECD, sem heitir DAC. Með því fáum við mjög skýran ramma um það hvað er rétt, eðlilegt og sanngjarnt að telja til opinberrar þróunaraðstoðar af heildarkostnaðinum. Við höfum sem sagt talið hluta af okkar kostnaði til opinberrar þróunaraðstoðar alveg frá árinu 2014 en síðan kemur þarna ný aðferðafræði sem byggir á tilmælum DAC 2018 og eins og ég sagði þá höfum við aðlagað okkur að þessu. Þetta gerir okkur kleift að spegla okkur í alþjóðaumhverfinu á sama grunni.

Ef við ræðum aðeins um það hvaða hlutfall við höfum verið að taka inn, ef við notum t.d. árið 2021, þá var hlutfall kostnaður vegna umsækjenda um vernd og flóttamanna af heildarframlögum Íslands til þróunarsamvinnu 6%. Ég held að það sé bara skynsamlegt að nota þessi viðmið. Aðrir eru að gera það, langflestir. Það eru dæmi um undantekningar frá því en langflestir eru að nota þessi viðmið. Ég veit t.d. að Lúxemborg gerir þetta ekki.

Að öðru leyti þá vil ég bara fagna þeim undirtektum sem við höfum fengið hérna með umræðunni sem fram hefur farið í dag. Ég býð fram alla aðstoð til utanríkismálanefndar við að vinna áfram með þingsályktunartillöguna og ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru metnaðarfull markmið í þessari áætlun sem verður krefjandi að fylgja eftir. Það eru margir spennandi hlutir að gerast í þróunaraðstoðinni eins og við höfum aðeins komið hérna inn á. Í þessari alþjóðlegu þróunarsamvinnu erum við að stefna að opnun sendiráðs í Síerra Leóne. Það hefur verið lagður grunnur að því, eins og var aðeins komið inn á hérna, það hefur átt sér sinn aðdraganda og við erum með mjög góð dæmi úr annarri tvíhliða þróunarsamvinnu sem við getum bara verið mjög stolt af.

Að þessu sögðu þá læt ég máli mínu lokið, virðulegi forseti.