154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég sat heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu í gær og fyrradag ásamt um 500 öðrum konum. Þetta var alveg mögnuð tilfinning. Það er gaman að segja frá því að það er eftir því tekið hversu vel við Íslendingar stöndum í alþjóðlegum samanburði í jafnréttismálum og við Íslendingar höfum löngum verið númer eitt í heiminum þegar jafnrétti kynjanna er mælt. En þrátt fyrir það er fjarri því að fullkomnu jafnrétti sé náð, eins og við vitum svo vel. Okkur miðar of hægt áfram hér á landi í átt að fullu jafnrétti þótt við finnum það sannarlega að það er mikil samstaða um það í samfélaginu. Við erum enn þá að eiga við kynbundinn launamun. Við erum enn þá að takast á við kynbundið ofbeldi, þó að við höfum borið gæfu til þess að taka forystu og viðurkenna að það er raunverulegt samfélagsmein hér á landi.

Frá árinu 2017 hefur verið tekið á þessum málum af festu undir forystu Katrínar Jakobsdóttur sem fer með jafnréttismálin. Áhersla hefur verið lögð á vitundarvakningu og íslenskar konur eru mjög meðvitaðar um launamun kynjanna, um kynbundið ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, sem var m.a. til umfjöllunar á þessu heimsþingi og verð ég að segja að Ashley Judd var mögnuð í sinni framsögu og samtali.

Á heimsþinginu voru einnig niðurstöður Reykjavíkurvísitölunnar kynntar en það eru viðhorfsmælingar til afstöðu kvenna í forystuhlutverkum. Þær valda satt að segja miklum áhyggjum því að þar mælist bakslag og ekki bara hér heldur á alþjóðavísu. Viðhorfin eru að verða neikvæðari gagnvart konum í leiðtogahlutverki og bakslagið kemur helst fram í viðhorfum ungs fólks. Sem betur fer eru viðhorfin hér á landi ekki eins slæm og í öðrum ríkjum en þetta eru samt sláandi niðurstöður. Ástæðurnar voru ræddar á þinginu, m.a. kom fram að þetta gæti átt rót í efnahagsþrengingum, vexti popúlisma og hvernig samfélagsmiðlar skiluðu skilaboðum til ungs fólks. En það kom einnig fram að löndin gætu mörg hver lært af þróun mála á Íslandi þar sem mikið hefði áunnist en konur teldu samt að hægt væri að gera meira. Því að vitundarvakning virkar, það að konur geri kröfur virkar. Og íslenskar konur veita öðrum konum innblástur í þessum efnum og það er vel. Það er því afar mikilvægt að við sameinum krafta okkar og stöðvum þessa afturför.