154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[15:58]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu um málefni fatlaðs fólks. Að fjárfesta í fólki til framtíðar er eitt af leiðarljósum Framsóknar, en á það var einmitt lögð mikil áhersla fyrir síðustu kosningar og endurspeglast þær áherslur í stjórnarsáttmála. Markviss fjárfesting í fólki felst m.a. í endurskoðun og samþættingu opinberrar þjónustu þar sem áherslan er á að tryggja öllum einstaklingum rétta þjónustu á réttum tíma. Þar skipta máli forvarnir á öllum sviðum, tryggur aðgangur að þjónustu þegar og þar sem hennar er þörf, snemmtæk íhlutun og ýmislegt fleira svipað og verið er að innleiða í málefnum barna.

Í stjórnarsáttmálanum eru tilteknar ýmsar aðgerðir sem sérstaklega varða fatlað fólk, eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á. Á síðasta þingi voru samþykktar nokkrar mikilvægar lagabreytingar tengdar þeim aðgerðum sem felast m.a. í auknum sveigjanleika á vinnumarkaði, svo sem hækkun frítekjumarks og lækkun skerðingarhlutfalls og lengingu endurhæfingartímabils. En ég vil líka leggja áherslu á að margar almennar aðgerðir stjórnvalda hafa veruleg áhrif á lífsafkomu og lífsgæði fólks með fötlun, eins og annarra. Hér vil ég sérstaklega nefna að nú er nýtt húsnæðiskerfi tilbúið og áframhaldandi innleiðing þess mun bæta stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði. Ég vil líka leggja áherslu á að það er mikilvægt að horfa á stóru myndina en vera á sama tíma meðvituð um að engin kerfi eru gallalaus og þegar við rekumst á galla og hnökra verðum við að vera tilbúin að bregðast við þeim og gera breytingar sem geta skipt örfáa einstaklinga miklu máli þótt þær hafi lítil áhrif á heildina. Þannig sköpum við samfélag þar sem enginn er skilinn út undan og náum markmiði um inngildingu.