154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Málefni fatlaðs fólks.

[16:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að við ræðum um málefni fatlaðs fólks en við eigum ekki bara að gera það í sérstökum umræðum á Alþingi, við eigum að gera það í umræðum um öll þau mál sem við ræðum hér og þau okkar sem hafa lesið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vita að það er þannig sem á að vinna. Ísland hefur fullgilt samninginn og okkur ber að gæta þess að öll lög sem við setjum hér séu í samræmi við hann. Auðvitað skiptir máli að lögfesta samninginn og að því er stefnt, líkt og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Einn mikilvægur liður í því er að koma á fót innlendri mannréttindastofnun, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur mælt fyrir um í frumvarpi sem er nú þegar til vinnslu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég ætla rétt að vona að verði gert að lögum hér innan skamms.

Frú forseti. Vegna þess að málshefjandi, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, talaði um að það ætti að hætta að gera endalausar skýrslur um þetta málefni þá vil ég nota þetta tækifæri og mótmæla því. Það er einmitt vegna rannsókna sem hafa verið gerðar á þeirri kerfislægu mismunun sem fatlað fólk býr við sem við vitum nokkurn veginn hvað það er sem er að í okkar samfélagi og hverju þarf að breyta. Fatlað fólk á kröfu um að það sé unnið að málefnum þess af fagmennsku og að það sé byggt á þekkingu þegar kemur að því að bæta kjör þess, líkt og allt annað fólk á kröfu um í samfélaginu, alveg eins og samfélagið byggir á rannsóknum og þekkingu þegar kemur til að mynda að því að bregðast við náttúruhamförum. Að sjálfsögðu þarf svo að vinna eftir því sem kemur fram í skýrslunum. En ég mótmæli því að rannsóknir og kerfisbundin söfnun upplýsinga sé töluð niður (Forseti hringir.) því að það er einmitt með kerfislægri söfnun á upplýsingum sem við höfum séð (Forseti hringir.) hvernig hefur verið farið illa með fatlað fólk í gegnum tíðina og úr því verður ekki gert lítið meðan ég stend hér.