154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[16:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að halda mig á svipuðum slóðum og síðustu tveir hv. þingmenn og spyrja ráðherrann aðeins nánar út í sálrænan stuðning við íbúa Grindavíkur, kannski sérstaklega börnin en auðvitað fullorðið fólk líka vegna þess að foreldrar þurfa stuðning til að geta verið stuðningur við börnin sín. Á svona tímum þarf allt samfélagið að vita að það geti leitað eitthvert til að komast andlega í gegnum þetta áfall. Ég heyri hæstv. ráðherra lýsa því að hér ætli ríkisstjórnin að styðja með afli og hún ætli að leyfa Grindavík að leiða þá vinnu. En ég heyri ekki það sem mig langar bara að heyra skýrt, að ríkisfjármálum verði beitt í þetta verkefni. Félagsþjónusta Grindavíkur er ekki sett upp til þess að takast á við áfall af þessari stærðargráðu. Á venjulegum degi getur félagsþjónusta Grindavíkur ekki greint andlega stöðu allra íbúa bæjarins og hvað þá á þeim stutta tíma sem við höfum til stefnu núna. Þarna þarf mannskap og það þarf pening til að reka þetta verkefni. Síðan þegar kemur að því að veita þjónustuna þegar búið er að greina þörfina fyrir hana þá þarf líka pening. Við þekkjum það allt of vel í þessum sal að það reynist stundum auðvelt að segja að þingheimur vilji að sálfræðiþjónusta verði aðgengileg en svo virðist vera erfiðara að tryggja fjármuni til þess. Við þekkjum dæmi um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu sem við erum enn að bíða eftir, þremur eða fjórum árum eftir að við samþykktum hér með hverju einasta atkvæði að hana ætti að veita gjaldfrjálst. Ég vil heyra frá ráðherranum að ríkisfjármálunum verði beitt af fullum þunga í þágu þessa verkefnis.