154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[16:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra óvenjuskýr svör af ráðherra að vera. Hann mun leggja það til að Alþingi samþykki þá fjármuni sem þarf til að standa að baki þeirri sálfræðiaðstoð sem nauðsynleg er og væntanlega öðrum aðgerðum, ef ég skil hann rétt. Ég held hann viti alveg hvar hann getur sótt stuðning til þeirra góðu verka. Nú eru aðstæður fólks ólíkar í öllum samfélögum en Grindavík er dálítið óvenjuleg að því leytinu til að það er mjög mikið af innflytjendum þar í bæ sem eiga, ég vil ekki segja endilega veikt bakland en það er minna. Bakland innflytjenda í Grindavík er kannski bara í Grindavík, í því samfélagi, á meðan fólk sem er borið og barnfætt á Íslandi á bakland um allt landið og getur sótt þangað bæði húsnæði en líka þennan félagslegan stuðning sem við þurfum á erfiðum tímum. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort staða þessa hóps sé sérstaklega skoðuð.