154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[17:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Mér heyrist við þingmenn allir vera meira og minna sammála um hvað þurfi að gera, eins og vænta mátti. Ég efast ekki um að allir þingmenn muni áfram standa saman um að af því verði, en til þess að hægt sé að takast á við ástandið er þó mikilvægt að gera sér grein fyrir umfangi þess og eðli. Það verður að segjast eins og er að margt í kerfinu hjá okkur er ekki eins vel í stakk búið til að takast á við þennan vanda eins og það hefði getað verið eftir ákveðið stjórnleysi á undanförnum árum; gríðarlegt álag á skólana sem fyrir var komið fram, gríðarlegur skortur á húsnæði af ýmsum ástæðum og óvissa í heilbrigðismálum, heilbrigðiskerfið í vörn, ekki hvað síst á sviði sálrænnar aðstoðar. En ef við gerum okkur grein fyrir þessu ástandi erum við líklegri til að bregðast við í samræmi við tilefnið.

Það sem ég á við er að nú þarf að forgangsraða í þágu Grindvíkinga. Fjárlögin þarf að endurskoða, þau fjárlög sem voru kynnt hér í september eiga ekki lengur við. Það mun þurfa róttækar breytingar, róttækar aðgerðir. Ég held að landsmenn séu meira og minna allir sáttir við að það muni fela í sér forgangsröðun í þágu Grindvíkinga. Ég tek undir það sem margir hafa sagt hér um mikilvægi þess að Grindvíkingar sjálfir leiðbeini stjórnvöldum um hvernig sé best að standa að hlutunum, ekki hvað síst í menntamálunum, en ef við eigum að ráða við þetta verkefni þá þarf ráðstafanir og aðgerðir í samræmi við það. Velferð barnanna snýst auðvitað að miklu leyti um að kennsla og skólastarf gangi eins vel og kostur er en hún snýst líka um stöðu foreldrana, að foreldrarnir séu ekki í algjörri óvissu um hvað taki við, hvernig sem hlutirnir þróast núna á næstu dögum, vikum og mánuðum. Þess vegna er það hlutverk stjórnvalda að gefa eins mikinn fyrirsjáanleika og kostur er við þessar aðstæður og jafnframt að vera meðvituð um það að eins og staðan er núna og miðað við það sem von getur verið á þá þarf að endurskoða hvernig hlutirnir hafa verið hér að undanförnu. Það þarf að endurskoða fjárlögin, það þarf að forgangsraða algerlega upp á nýtt til að takast á við þennan vanda með Grindvíkingum. Þetta eru þau skilaboð sem ég vildi helst bæta við hérna, að menn líti á heildarmyndina og líti á umfang vandans og geri sér grein fyrir því að hann kalli á róttækar aðgerðir.