154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[17:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum sem að mestu leyti varða skatta og gjöld. Við vinnslu þess var haft samráð við dómsmálaráðuneytið, matvælaráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Skattinn vegna einstakra ákvæða frumvarpsins.

Fyrst vil ég nefna ákvæði um gistináttaskatt sem kemur aftur til framkvæmda á árinu 2024 líkt og fram kom í frumvarpi til fjárlaga í haust. En álagningu hans var frestað tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Lagt er til að í fyrsta lagi verði gildissvið laganna víkkað þannig að þau taki til rekstraraðila skemmtiferðaskipa, þ.e. bæði rekstraraðila skemmtiferðaskipa sem eingöngu eru notuð til að sigla um strendur landsins og rekstraraðila skemmtiferðaskipa sem sigla með farþega milli landa. Skattskyldan samkvæmt frumvarpinu nær eingöngu til þess tímabils þegar skipin dvelja innan tollsvæðis ríkisins.

Í öðru lagi er lagt til að greiða skuli gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest, að undanskildum börnum undir 18 ára aldri. Í þriðja lagi er lagt til að gistináttaskattur verði í öllum tilvikum 300 kr. Breytingarnar taka til gistináttaeininga sem seldar verða frá árinu 2024. Þess má geta að menningar- og viðskiptaráðherra vinnur nú, ásamt hagaðilum að gjaldtöku í ferðaþjónustu til framtíðar. Ætla má að breytingar á gistináttaskatti leiði til alls 1,8 milljarða kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar af 1,6 milljarðar kr. í gistináttaskatt og 0,2 milljarðar kr. í hliðaráhrif á virðisaukaskatt þar sem hann er lagður á söluverð gistingar að gistináttaskatti meðtöldum. Gistináttaskattur mun miðað við þessar forsendur skila alls 3,1 milljarði kr. í tekjur árið 2024. Þar af er búist við að 250 millj. kr. verði lagðir á vegna sölu gistingar um borð í skipum við Ísland sem hingað til hafa verið undanþegin skattinum, bæði skipum sem selja ferðir til og frá Íslandi með viðkomu í einni eða fleiri höfnum hérlendis og skipum sem einkum selja siglingu við eða kringum Ísland. Búist er við að áhrif af hækkun gistináttaskatts á gistingu í landi skiptist þannig að 300 millj. kr. af hækkuninni verði af gistingu Íslendinga en 1,2 milljarðar kr. af gistingu erlendra ferðamanna.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á tekjuskattslögum sem snýr að því að leggja upplýsingaskyldu á rekstraraðila stafrænna vettvanga sem hafa milligöngu um, eða aðra aðkomu, að koma á viðskiptum milli leigjenda og leigusala, og eftir atvikum greiðsluþjónustu, í tengslum við fasteignir og lausafé hér á landi. Sem dæmi um þetta má nefna Airbnb. Upplýsingaskyldan kemur til með að byggjast á alþjóðlegri fyrirmynd sem flest ríki Evrópu hafa tekið upp og yrði því um að ræða samsvarandi skyldu hér á landi og gildir nú þegar víða annars staðar.

Þá er í frumvarpinu lagt til að tímabundnir styrkir til kaupa á hreinorkubílum úr Orkusjóði teljist ekki til skattskyldra tekna hjá mönnum á árinu 2024. Skattfrelsi styrkjanna hefur í för með sér tekjutap fyrir ríki og sveitarfélög sem gróflega má áætla um 1 milljarð kr. fyrir ríkissjóð og um 0,5 milljarða kr. fyrir sveitarfélög á árinu 2024.

Næst er komið að breytingum á lögum um gjald á áfengi og tóbaki sem heimila 50% lækkun á áfengisgjaldi fyrir tiltekið magn áfengra drykkja sem framleiddir eru af litlum og sjálfstæðum framleiðendum. Framleiðandi telst lítill ef ársframleiðsla hans á bjór er undir 500.000 lítrum á næstliðnu almanaksári. Þá telst framleiðandi sjálfstæður ef hann uppfyllir tvö skilyrði, þ.e. annars vegar að hann framleiði allan bjór á starfsstöð sinni með eigin framleiðslutækjum og á grundvelli eigin leyfis og hins vegar að annar aðili sem framleiðir áfengi eigi ekki meiri hluta í framleiðandanum, hvorki með beinum eða óbeinum hætti. Heimildin til að reikna lægra áfengisgjald tekur til samtals 200.000 lítra af bjór frá hverjum framleiðanda á hverju almanaksári. Gert er ráð fyrir að breytingartillagan leiði til tekjutaps fyrir ríkissjóð sem nemur tæpum 200 millj. kr. hvað innlenda framleiðslu varðar. Þar við bætist tekjutap vegna innflutts bjórs, en ekki var unnt að leggja nákvæmt mat á stærð hinna erlendu framleiðenda. Þó er gert ráð fyrir að afslátturinn vegna innflutta hlutans sé mun minni en hins innlenda.

Þá eru lagðar til breytingar í þá veru að fellt verði brott ákvæði í tollalögum sem kveður á um tollfrelsi skemmtiferðaskipa sem skráð eru erlendis en eru notuð í innanlandssiglingar í allt að fjóra mánuði á ári. Að baki breytingartillögunni búa samkeppnis- og jafnræðissjónarmið milli aðila, til að mynda gististaða og veitingahúsa. Samtök fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu hafa bent á þá samkeppnisröskun sem felist í siglingu þessara skipa í kringum landið. Einnig eru dæmi um svokölluð hótelskip, skip sem eru í sömu höfn í lengri tíma í beinni samkeppni við innlenda rekstraraðila, til að mynda gististaði og veitingahús. Gera má ráð fyrir því að breytingartillagan kunni að hafa fjárhagslega hagsmuni í för með sér fyrir ríkissjóð haldi rekstraraðilar þessara skipa viðteknum hætti og bjóði áfram upp á siglingar hringinn í kringum landið. Fjárhæðir í því samhengi liggja ekki fyrir en hins vegar liggja fyrir upplýsingar um að alls ellefu skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis, hafi stundað siglingar í kringum Ísland sumarið 2023 án þess að eiga viðkomu í erlendri höfn í hverri ferð. Ferðirnar um landið voru tæplega 60 á tímabilinu og var heildarfjöldi gesta um 16.600.

Lagt er til að lögfest verði heimild fyrir innheimtumenn ríkissjóðs til að senda rafræna tilkynningu um fyrirhugaða stöðvun atvinnurekstrar í stafrænt pósthólf aðila í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, Ísland.is. Framkvæmdin hefur verið sú að innheimtumenn senda tilkynninguna með almennum pósti á lögheimili aðila en verði ákvæðið að lögum mun tilkynningin eingöngu verða send í stafrænt pósthólf aðilans og telst það fullnægjandi tilkynning í skilningi stjórnsýslulaga.

Þá vík ég að gjaldi í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins. Í lögum um útflutning hrossa er kveðið á um innheimtu sérstaks gjalds af hverju útfluttu hrossi og er það föst krónutala, eða 3.500 kr. Tekjur af gjaldinu eiga samkvæmt lögunum að renna í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins sem er í umsýslu Bændasamtaka Íslands og starfar eftir reglugerð um hann. Innheimta gjaldsins var áður í höndum Bændasamtakanna en var flutt til ríkisins árið 2019. Innheimta gjaldsins hófst ekki fyrr en 2021, þá miðað við útflutning hrossa allt frá ársbyrjun 2019. Sú innheimta var kærð til yfirskattanefndar sem komst að þeirri niðurstöðu að lagastoð fyrir henni væri ekki nægileg. Eftir úrskurðinn var það niðurstaða þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið að leita annarra leiða fremur en að halda innheimtunni til streitu. Því er lagt til að ákvæðið verði einfaldlega fellt brott og ný leið fundin.

Er þá komið að greiðslumarki samkvæmt búvörulögum en við fyrri endurskoðun búvörusamninga var greiðslumark framlengt út árið 2026. Það á því ekki að falla niður samkvæmt samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt fyrr en 1. janúar 2027. Því er lögð til sú tæknilega breyting í lögunum að í stað ártalsins 2026 komi 2027.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs þannig að gjöld fyrir vegabréfsáritanir, sem mótteknar eru erlendis, verði miðuð við evrur í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins um samræmda útgáfu áritana. Ísland er skuldbundið af gerðinni og hefur hún verið innleidd með lögum um útlendinga og reglugerð um vegabréfsáritanir. Breytingartillagan tekur mið af því að Ísland er skuldbundið að lögum að fylgja fjárhæðarviðmiðum Evrópusambandsins um vegabréfsáritanir auk þess sem misræmi getur verið á fjárhæðum samkvæmt núgildandi lögum eftir því hvort einstaklingur sækir um vegabréfsáritun í sendiráði Íslands erlendis, en þá er miðað við gjald í gjaldmiðli viðkomandi lands, eða á Íslandi. Breytingartillagan gerir auk þess ráð fyrir því að ákvæðið verði endurskoðað í heild sinni og töluliðum raðað saman eftir skyldleika innan þess. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að fyrir umsókn um vegabréfsáritun skuli Útlendingastofnun gefa út gjaldskrá á mánaðarfresti er taki mið af miðgengi evru mánaðarins á undan fyrir útgáfu nýrrar gjaldskrár og námundað niður að næsta hundraði.

Virðulegi forseti. Vík ég þá að málefni utanríkisþjónustunnar þar sem á grundvelli mannauðsstjórnunar og hagkvæmnissjónarmiða er mælt fyrir um heimild utanríkisráðuneytisins til að ráða starfsmenn Íslandsstofu, án auglýsingar, tímabundið til starfa sem viðskiptafulltrúa í sendiráðum.

Í frumvarpinu eru að lokum lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögum. Hér er í fyrsta lagi um að ræða ákvæði sem lögfest var í tekjuskattslögum fyrir ári síðan og heimilar að tekjur, að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins, af nýtingu kaupréttar, sem annars hefðu verið skattlagðar sem laun, verði skattlagðar sem fjármagnstekjur. Lagt er til að gildistími ákvæðisins verði takmarkaður við tíu ár til samræmis við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð en almennt ber að tímabinda þannig reglur samkvæmt leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í öðru lagi er lagt til að körtur og beltabifreiðar, þar með taldir vélsleðar, sem knúnar eru rafhreyfli, verði undanþegnar vörugjaldi. Tillagan er í samræmi við markmið stjórnvalda um orkuskipti en nú þegar eru bifhjól, þar með talin fjórhjól og sexhjól, og golfbifreiðar sem knúnar eru með rafhreyfli undanþegnar vörugjaldi.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæði í höfundalögum sem kveður á um árlega greiðslu bóta til höfunda fyrir eftirgerð höfundaverka til einkanota samkvæmt sérstakri fjárheimild í fjárlögum. Samkvæmt lögunum eru greiddar bætur til höfunda sem eru tiltekið hlutfall af tollverði vara sem flokkast í ákveðin tollskrárnúmer. Gerðar voru breytingar á tollskrá sem tóku gildi 2022 en þá fórst fyrir að gera breytingar á höfundalögum til samræmis við þá breytingu. Það leiddi til þess að bætur til höfunda skertust. Breytingartillögunni hér er ætlað að tryggja höfundum sömu bætur og þeir nutu áður en tollskránni var breytt.

Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við ákvæði í lögum um virðisaukaskatt, sem fjallar um skilyrði fyrir endurgreiðslu á virðisaukaskatti lögaðila, að seljandi þeirrar vinnu sem ákvæðið tekur til sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Sams konar skilyrði gildir fyrir aðrar endurgreiðslur á virðisaukaskatti.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á ákvæðum tekjuskattslaga sem fjalla um skattskyldu erlendra aðila með tekjur hér á landi. Breytingarnar snúa að því að gera orðalag ákvæðanna skýrari en jafnframt að mæla sérstaklega fyrir um skattskyldu á gjöfum úr landi og öðrum tekjum sem ekki eru sérstaklega taldar upp í öðrum ákvæðum. Breytingarnar ættu að hafa takmörkuð áhrif í þeim tilvikum sem tvísköttunarsamningar eiga við. Þá er einnig lögð til sú breyting að fella niður persónuafslátt í þeim tilfellum þegar erlendir lífeyrisþegar fá lífeyristekjur frá Íslandi en persónuafsláttur er almennt veittur í því ríki þar sem viðkomandi er heimilisfastur eða búsettur en auk þess geta lífeyrisþegar sem búsettir eru innan EES, Sviss eða í Færeyjum sótt um að vera skattlagðir hér á landi líkt og innlendir aðilar og fá þar með persónuafslátt ef þeir fá meiri hluta tekna sinna frá Íslandi.

Að lokum eru í sjötta lagi lagðar til breytingar á tekjuskattslögum sem ætlað er að gera textann skýrari og til samræmis við skattframkvæmd án þess að um efnisbreytingar sé að ræða. Heimild í lögunum um frestun skattlagningar söluhagnaðar um tvö ár sem og heimild til lækkunar söluhagnaðar á móti stofnverði, tekur til öflunar bújarða og ófyrnanlegra náttúruauðæfa á bújörðum annars vegar og stofnverðs íbúðarhúsnæðis til eigin nota hins vegar. Það kemur þó ekki sérstaklega fram að öflun íbúðarhúsnæðisins þurfi að vera í tengslum við lok búreksturs en í framkvæmd hefur ákvæðið verið túlkað á þann veg, m.a. með tilliti til lögskýringargagna og nýlegs úrskurðar yfirskattanefndar. Rétt þykir að festa þessa framkvæmd í sessi þannig að skilyrði ívilnunar sem ákvæðið mælir fyrir um komi skýrt fram í texta þess. Þá er lagt til að færa umfjöllun um íbúðarhúsnæði í nýjan málslið þannig að ákvæðið verði auðskiljanlegra.

Ekki er talið að þessar breytingar muni hafa samanlagt teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga, einstaklinga og lögaðila verði frumvarpið óbreytt að lögum. Jafnframt er talið að áhrif tillagna frumvarpsins á mælda verðbólgu á árinu 2024 af hækkun gistináttaskatts verði óveruleg og sama gildir um aðrar tillögur þess.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.