154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna með þessu frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Líkt og í svona bandormi þá kennir ýmissa grasa og ýmislegt sem efnahags- og viðskiptanefnd mun að sjálfsögðu í sínu starfi kafa ofan í og skoða. En það eru tvö atriði sem mig langar að nefna hér við 1. umræðu og það er annars vegar breyting á lögum um gistináttaskatt. Ég vil byrja á því að fagna því að hér sé verið að koma inn með gistináttaskatt og ég vil líka fagna því að hann eigi að leggja á skemmtiferðaskip. Mér finnst hins vegar alveg þess virði að efnahags- og viðskiptanefnd taki á því snúning í sinni vinnu að skoða hvort það ætti að þrepaskipta þessum skatti með einhverjum hætti. Það kom fram í orðaskiptum hæstv. ráðherra og hv. þingmanna í andsvörum að sums staðar erlendis er farin sú leið að vera með þetta prósentutengt, þ.e. að þetta sé þá hlutfall af kostnaði við gistingu. Það væri líka hægt að hafa ólík krónutöluþrep þar sem þau sem velja sér dýrari gistingu greiða hærri gistináttaskatt en þau sem eru í ódýrari gistingu, til að mynda í tjaldi. Mér finnst ekki sjálfgefið að það sé sama gjald greitt fyrir það að vera annars vegar í tjaldi og hins vegar á fimm stjörnu hóteli. Mér finnst þetta því vera vinna sem nefndin ætti að hella sér í og skoða hvort það ætti e.t.v. að gera breytingar þar á.

Hitt atriðið sem mig langar að nefna er 18. gr. hér í frumvarpinu sem er breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki þar sem er lagt til að heimila að lækka áfengisgjald að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í umfjöllun á bls. 11 í frumvarpinu kemur fram að tillagan tekur mið af því að löggjöf um gjald á áfengi er ætlað að afla ríkinu tekna og um leið að stýra neyslu áfengis með gjaldtöku. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að ríkið mun verða af einhverjum tekjum við þetta. Þetta eru ekkert gríðarlega háar upphæðir og svo sannarlega ekki upphæðir sem skilji á milli feigs og ófeigs í rekstri ríkisins en það sem mér finnst mikilvægt að nefndin skoði frekar er þetta með að stýra neyslu áfengis með gjaldtöku. Breytingin gengur út á að það sé bjór sem verði með lægra almennt áfengisgjald og ég skil textann hérna þannig að þar með sé verið að stýra neyslunni í þá átt og ég myndi gjarnan vilja heyra fyrir því til að mynda lýðheilsufræðileg rök. Er endilega góð hugmynd að gera það? Hvaða áhrif gæti það haft á heildarneyslu Íslendinga þegar kemur að áfengi? Ég veit það ekki, kannski engin, kannski verður það til góðs, ég er ekki viss um það. En þetta er atriði sem mig langaði bara að vekja athygli á í þessari umræðu að mér finnist mikilvægt að verði tekið sérstaklega til nánari skoðunar í nefndarstarfinu. Svo eru það allar hinar greinarnar sem nefndin mun að sjálfsögðu skoða en þessum tveimur fannst mér mikilvægt að tæpa á hér í 1. umræðu og vekja athygli á að þyrfti að skoða nánar.