154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

eingreiðsla til eldri borgara.

[15:22]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Í fyrsta lagi fá bæði örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar greiddar bæði desemberuppbót og orlofsuppbót eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er reyndar ekki samkvæmt lögum heldur hefur skapast hefð fyrir því á undanförnum árum að gera það og ég mun að sjálfsögðu halda því áfram. Ef við förum ofan í það sem hv. þingmaður kemur inn á hérna, eingreiðsluna sem hefur komið til örorkulífeyrisþega á undanförnum sennilega þremur árum, þá er ástæðan fyrir því að ráðist hefur verið í þá eingreiðslu einfaldlega sú að okkur hefur ekki tekist enn þá hér á Alþingi Íslendinga að gera nauðsynlegar breytingar á kerfi almannatrygginga sem snýr að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum. Það er ástæðan fyrir því að þessi eingreiðsla var tekin upp á sínum tíma og er þar með líka ástæðan fyrir því að við höfum ekki litið til sams konar greiðslna fyrir eldri borgara eða fyrir eldra fólk. Það er mikilvægt að við gerum þennan greinarmun vegna þess að ráðist var í umfangsmiklar breytingar á kerfi ellilífeyrisþega árið 2017 sem skilaði þeim umtalsverðum bótum þegar kemur að afkomu þeirra og auk þess hefur verið ráðist í sérstakan félagslegan viðbótarstuðning sem kom inn árið 2021, ef ég man rétt, þannig að hér er ekki um sambærilega hluti að ræða.