154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

eingreiðsla til eldri borgara.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. En það er alveg óverjandi með öllu að öryrkjar séu með fjárhagslegan hnút í maganum þegar þeir hætta að vera öryrkjar og fara yfir í ellilífeyriskerfið. Spáið í hvað skeður við það. Þeir missa 28.000 kr. á mánuði, 336.000 kr. á ári. Er það eðlilegt? Fólk sem er búið að vera fatlað alla sína ævi, þegar það er loksins orðið gamalt, á að refsa þeim fyrir það? Það á að hjálpa þeim meira. Það þyrfti a.m.k. 28.000 kr., 30.000 kr. meira vegna sinnar fötlunar heldur en að láta þetta minnka. Og desember- og orlofsuppbót er skert, sumir fá ekki krónu út úr því. Ætlar ráðherra að sjá til þess að þeir fái það? Ætlar hann að sjá til þess að hækkunin um næstu mánaðamót verði jafn mikil og til frjálsra fjölmiðla, 10,6% en ekki 4,9%?