154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda vegna andlegra áfalla út af ástandinu í Grindavík.

[15:33]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Þjóðin hefur tekið höndum saman við að styðja Grindvíkinga sem hafa flúið heimili sín vegna náttúruhamfaranna sem dynja á þeim. Þúsundir lifa í fullkominni óvissu um afdrif heimila sinna, afkomu fjölskyldunnar og framtíðina. Hugur minn hefur verið hjá Grindvíkingum stöðugt undanfarna daga en ástandinu er ekki lokið og við vitum ekki hvað það mun vara lengi. Ýmislegt hefur verið gert en enn má gera mun betur. Skólaþjónusta og frístundastarf fyrir börn þarf að vera leyst hið allra fyrsta. Við þurfum að tryggja öllum öruggt þak yfir höfuðið og við þurfum að gæta þess að fólk eigi í sig og á. Frumvarp hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra verður til umræðu hér á eftir. Þar er lagt til að koma á nokkurs konar Covid-stuðningi fyrir fólk sem hefur orðið fyrir launatapi. En aðrir hafa það líka slæmt. Fólk sem er í vinnu utan bæjarmarkanna þarf að greiða áfram af húsnæðislánunum sínum og hefur þannig ekki ráð á að greiða fyrir annað húsnæði og enn hefur ekkert verið lagt fram til að mæta þeim fjölskyldum.

Mig langar í stað þess að vera að tala hér bara um peninga og fasteignir að ræða andlega líðan sem skiptir miklu máli hvað þetta varðar. Við erum að sjá fólk kannski upplifa sitt mesta áfall á sinni lífsleið. Við vitum að í Eyjagosinu var ekki tekið á slíkum málum en við vitum að við erum búin að læra eitthvað á þessum 50 árum síðan þá. Við vitum líka að það eru komnar þjónustumiðstöðvar í Reykjavík og væntanleg þjónustumiðstöð á Suðurnesjum en það þarf að ná til hópsins. Hvernig hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að mæta þessari stöðu sem uppi er og takast á við það andlega áfall sem fólk er að lenda í?