154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

sérstök móttaka fyrir konur innan heilsugæslunnar.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jódís Skúladóttir fyrir spurninguna og það er rétt að forveri minn, hæstv. matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir, setti þetta mjög jákvæða verkefni af stað. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fékk það verkefni að þróa og opna sérstaka móttöku fyrir konur og sinna sérstaklega kvenheilsu og sú móttaka var opnuð í Mjódd í maí síðastliðnum og verður þar áfram. Það ríkir töluverð ánægja hingað til með aðstöðuna og húsakostinn, það best ég veit. Þar er m.a. horft sérstaklega til að veita heilbrigðisþjónustu og ráðgjöf um ofbeldi og afleiðingar þess, um breytingaskeið kvenna, getnaðarvarnir og sjúkdóma sem herja sérstaklega á konur. Þar er mikið og gott samstarf við Heilsubrú um ýmis námskeið og fræðslu, en Heilsubrú er miðlæg þjónustueining Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem styður við og bætir þjónustu allra heilsugæslustöðva. Í kjölfar námskeiða geta skjólstæðingar óskað eftir einstaklingsviðtali við fagaðila og eftir eðli erinda eru það kvensjúkdómalæknar, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingar sem taka þau viðtöl. Það fór í gang vinna við að útbúa fræðsluefni fyrir almenning og svo klínískar leiðbeiningar fyrir fagfólk og það er búið að koma þessu fræðsluefni og fyrirlestrum fyrir á vef. Hv. þingmaður spurði hér um framhaldið og matið á þessu og það er eðlilegt að gefa þessu tilraunaverkefni tækifæri til að blómstra, það hefur hingað til gefið góða raun en við þurfum kannski meiri tíma til að draga frekari lærdóm af þessu verkefni og til að leggja mat á framtíðarþróun og útvíkka það eitthvað frekar.