154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

sérstök móttaka fyrir konur innan heilsugæslunnar.

[15:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jódís Skúladóttir fyrir að taka þetta mál og vekja athygli á því og spyrja um hvernig gengið hafi hingað til með þessa kvennamóttöku. Ég vil rifja það upp að ákvörðunin á sínum tíma var einmitt tekin í ljósi vísbendinga og umræðu um að heilsuvanda kvenna væri ekki mætt sem skyldi og við þyrftum að bæta úr. Ég held að það hafi verið mjög gott skref og ég heyri ekki annað, þannig að það má segja að það hafi verið hlustað á áhyggjur af þessum toga og reynt að bregðast við og nokkuð vel, finnst mér. Við höfum líka samhliða lagt áherslu á málefni kvenna almennt í heilbrigðiskerfinu og kannski var þetta svona fyrsta almennilega skrefið. Við höfum sett í forgang svokallaðar lýðheilsutengdar aðgerðir með það að markmiði að stytta biðtíma eftir slíkum aðgerðum. Ég get nefnt aðgerðir sem snúa grindarholslíffærum kvenna, legsigi, blöðrusigi, endómetríósu og öðrum sjúkdómum sem valda kviðverkjum sem hafa veruleg áhrif á líðan og lífsgæði margra kvenna (Forseti hringir.) og svona mætti lengi telja. Þetta er svið sem við viljum gera betur í (Forseti hringir.) og erum að vonandi að ná einhverjum skrefum í þá átt.