154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart en í svörum hæstv. fjármálaráðherra fór ekki mikið fyrir umræðunni um þátt gjaldmiðilsins okkar í fjármálum heimila, fjármálum fyrirtækja og vaxtabyrðinni sem við búum við. Ég saknaði þess af því að það er auðvitað ekki þannig að íslenska krónan sé náttúrulögmál, að þessi sársaukafulli aukakostnaður sem við búum við, heimili landsins, sveitarfélög, ríkissjóður, auk þessara fyrirtækja sem enn búa í krónuhagkerfinu, sé eitthvað sem við neyðumst bara til að sætta okkur við um aldur og ævi. Staðan er sú að í dag búa tvær þjóðir á Íslandi. Það er sú sem lifir í krónuhagkerfinu; heimilin, sveitarfélögin, ríkissjóður og lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru hryggjarstykkið í atvinnulífinu okkar, og svo stórfyrirtækin sem standa fyrir utan krónuhagkerfið og gera upp í evru og dollara.

Nýlega samþykkti Starfsgreinasamband Íslands ályktun þess efnis að óháðir erlendir aðilar verði fengnir til að skoða kosti og galla íslensku krónunnar, sem og kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil. Við í Viðreisn fögnum því að sjálfsögðu. Það er gott og það er mikilvægt að sífellt fleiri skuli kveikja á því að sveiflurnar sem fylgja krónunni, þ.m.t. sveiflur í vöxtum, eru skaðlegar fyrir íslensk heimili. Á þessu ári verða vaxtagjöld ríkissjóðs vel yfir á annað hundrað milljarða króna. Ímyndum okkur að þessi vaxtakostnaður væri helmingi lægri, nokkuð sem er fyllilega raunhæft í öðrum gjaldmiðli miðað við núverandi skuldastöðu, ímyndum okkur hvað stjórnvöld gætu gert við þá tugmilljarða til hagsbóta fyrir heimili landsins ef vaxtakostnaðurinn væri bara laus við þetta séríslenska krónuvaxtaálag, og ímyndið ykkur hvernig staðan væri ef við byggjum ekki við stjórnvöld sem þætti í lagi að varpa þessum fáránlega krónukostnaði lóðbeint yfir á fjölskyldur landsins.