154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegir forseti. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga minna okkur enn og aftur á að það eru ekki við mannfólkið sem stýrum í raun þessu landi. Að þessu sinni hafa íbúar Grindavíkur mátt þola stærri skammt en við hin. Í svona aðstæðum er fallegt að fylgjast með hvað fólk er einhuga gott við annað fólk. Þó að við sjáum daga þar sem hver höndin er upp á móti annarri er dýrmæti okkar fólgið í hve fljót við erum að rétta hvert öðru hjálparhönd þegar á reynir. Fólk sem býr í farsælum samfélögum áttar sig ekki endilega á því dagsdaglega hversu margt þar til að gangverkið gangi upp, enda tifa góð samfélagsgangverk í hljóði svo fólk geti einbeitt sér að öðrum og merkilegri hlutum í sínu lífi. En fólk verður að geta treyst því að gangverkið sé til staðar. Fólkið í Grindavík getur treyst því að stjórnvöld eru öll með augu á því sem þau geta gert til aðstoðar. Það er skiljanlegt að flestir vilji afgerandi svör strax og þá er líka skiljanlegt að freistnin um yfirboð og bólgnar yfirlýsingar verði líka sterk. En það er ekki það sem kemur að mestu gagni. Það sem kemur að mestu gagni er að vinna af yfirvegun, vandvirkni og raunsæi að því sem hægt er að gera með hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi. Við sameinumst öll í þeirri von að skaðinn verði sem allra minnstur umfram það sem þegar er orðið. Um leið er hægt að treysta að augu allra eru og verða áfram á því sem hægt er að gera og hafa stjórn á þeim til aðstoðar í þessu volduga landi sem við búum í.