154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Ragna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. 5.500 börn hafa verið myrt á Gaza síðastliðinn einn og hálfan mánuð. Það er eitt barn á tíu mínútna fresti; börn sem höfðu vonir, drauma og þrár sem nú hafa verið tekin af þeim. 1.800 börn eru þar að auki týnd í myrkri undir rústum sem eru afleiðingar linnulausra sprengjuárása síðustu 45 daga. 9.000 börn hafa komist lífs af en særst, mörg hver alvarlega og með óafturkræfum afleiðingum. Í höfði mér situr föst mynd af samfélagsmiðlum af barni sem liggur hreyfingarlaust í sjúkrahúsrúmi. Líkami þess fellur inn í rúmið og brjóstkassinn lyftist ört. Þetta barn er eitt þeirra barna sem líða fyrir næringarskort vegna takmarkana ísraelskra yfirvalda á matvælum til íbúa á Gaza. Þegar hafa verið skráð dauðsföll vegna hungursneyðar á þessu hernumda svæði. Rýma hefur þurft sjúkrahús vegna árása Ísraelshers og skorts á vatni, olíu og rafmagni sem stjórnvöld Ísraels hafa ákveðið að skrúfa fyrir. Al-Shifa sjúkrahúsið, sem var fyrir fáeinum dögum lýst sem dauðasvæði, hefur verið rýmt. Færa hefur þurft tugi fyrirbura milli sjúkrahúsa án hitakassa og súrefnis sem þau þurfa. Átta þeirra hafa dáið.

Það er skylda okkar hér sem á Alþingi sitjum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva þessar hörmungar, sem eru jú af mannavöldum. Fyrir 12 dögum samþykkti Alþingi samhljóða ályktun um tafarlaust vopnahlé á Gaza. En hverjar eru aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að þrýsta á um vopnahlé? Hvað hefur hæstv. utanríkisráðherra gert til að þrýsta á um vopnahlé og beita sér fyrir því að stríðsglæpir ísraelskra stjórnvalda verði stöðvaðir? Hvað hefur hæstv. ráðherra sagt við sendiherra Ísraels og hvernig beitir hann áhrifavaldi sínu? Þetta er meðal þeirra spurninga sem ég hef lagt fram til skriflegs svars frá ráðherra. Ég óska eftir svari sem allra fyrst.