154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er að ýmsu að hyggja í þingstörfunum þessa daga. Ég tel að umræðan um viðskiptabann á Ísrael sé bæði áleitin og vaxandi í ljósi yfirgengilegra árása Ísraels á Gaza að undanförnu og þingmenn sem fylgjast með tölvupóstinum sínum sjá það glöggt að það er vaxandi umræða um þetta í samfélaginu. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs bauð Félaginu Íslandi-Palestínu á sinn fund til þess að ræða aðgerðir sem Ísland ætti að beita sér fyrir og þar bar margt á góma. Meðal þess er þingsályktunartillaga sem liggur nú þegar fyrir þinginu og snýst um að merkja vörur sem eiga uppruna sinn að rekja til hernuminna svæða í Palestínu. Það er vissulega ekki það sama og að fara í viðskiptabann en ég held hins vegar að það sé aðgerð sem skiptir gríðarlega miklu máli. Það er mál sem nú þegar liggur fyrir þinginu. Það liggur fyrir úrskurður frá Evrópudómstólnum um að þetta sé algerlega tæk leið og ekkert henni til fyrirstöðu. Ég vil líka hvetja íslenska neytendur til að skoða hvar vörurnar sem þeir kaupa eiga uppruna sinn. (Forseti hringir.) Það eru til að mynda seld vín í áfengisverslun ríkisins sem eiga uppruna sinn á hernumdum svæðum Palestínu — aldrei ættum við að kaupa slíkar vörur.