154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir 11 dögum síðan þurftu hátt í 4.000 íbúar Grindavíkur að yfirgefa heimili sín í skyndi. Margir fóru heim til vina og ættingja á meðan aðrir fengu inni í þeim fjöldahjálparstöðvum sem Rauði krossinn setti upp í Kópavogi, Reykjanesbæ og Árborg. Þökk sé velvilja einstaklinga, samtaka og fyrirtækja tókst að finna skammtímalausnir fyrir þau sem hefðu þurft að gista á beddum í íþróttasölum. Þetta eru samt allt skammtímalausnir og eins og bæjarstjórinn í Grindavík hefur bent á þá geta verið sex til níu mánuðir þangað til Grindvíkingar geta mögulega flutt aftur til síns heima. Það er því mikilvægt að finna leiðir til að leysa húsnæðisvanda Grindvíkinga til lengri tíma. Mörg þeirra sem yfirgáfu heimili sín hafa leitað á hinn almenna leigumarkað en þar er eftirspurn mun meiri en framboð og verð því miklu hærra en fólk sem einnig býr í óvissu um afkomu getur ráðið við. Mikilvægt er að stjórnvöld grípi þessar fjölskyldur með sértækum húsnæðisstuðningi til þeirra sem þurfa að fara á almennan leigumarkað. Á sama tíma er mikilvægt að stjórnvöld hugsi til þeirra einstaklinga sem eiga húsnæði sem hefur orðið fyrir það miklum skemmdum að taka þarf ákvarðanir um endurbyggingu, jafnvel á öðrum stað. Útvega þarf þessum fjölskyldum húsnæði sem þær geta dvalið í, ekki bara næstu mánuði heldur jafnvel út næsta ár. Þarna þurfum við að horfa til reynslunnar frá Heimaeyjargosinu en þá fengum við stuðning frá frændum okkar á Norðurlöndum til að byggja upp hverfi með svokölluðum viðlagasjóðshúsum víða um land, m.a. í Grindavík. Nauðsynlegt er að hefja vinnu við sambærilegar lausnir sem fyrst. Nú stendur upp á stjórnvöld að hafa hraðar hendur til að leysa húsnæðisvanda Grindvíkinga. Við í stjórnarandstöðu höfum lýst okkur reiðubúin til samstarfs en ekkert bólar á hugmyndum eða boðum um samstarf.