154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið hér í dag til að vekja athygli á fyrirspurn sem ég hef lagt fram til dómsmálaráðherra varðandi konur í fangelsum. Konur eru lítill hluti þeirra sem hljóta refsidóma á Ísland, að jafnaði innan við 10% dómþola. Eins og kemur fram í hinum svokölluðu Bangkok-reglum Sameinuðu þjóðanna um meðferð kvenfanga, með leyfi forseta, eru konur í fangelsum oft og tíðum í mjög viðkvæmri stöðu og afplánunarúrræði hafa í gegnum tíðina flest verið sett með karla í huga. Raunin er sú að kvenkyns afbrotamenn bera oft þungar byrðar andlegra og líkamlegra veikinda að líkindum í meira mæli en karlkyns fangar samkvæmt því sem rannsóknir leiða í ljós. Í greinargerð frjálsu félagasamtakanna Rótarinnar sem reka Konukot, sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg, kemur fram, með leyfi forseta, að afbrotahegðun karla og kvenna sé mjög ólík og að yfirleitt séu aðrar ástæður fyrir því að konur fremja afbrot en karlar. Þær fremja aðallega smáglæpi, þjófnað og minni háttar vímuefnabrot. Oft er horft fram hjá þörfum þeirra í fangelsum enda eru þær fáar hlutfallslega. Stór hluti kvenna í fangelsum er þar beint eða óbeint vegna margþættrar mismununar og skorts og fáar eru dæmdir fyrir ofbeldisglæpi en hafa sjálfar í miklum meiri hluta verið beittar miklu ofbeldi, margar þeirra allt frá fæðingu. Þar að auki eru konur oft í fangelsum beint eða óbeint vegna glæpa karla, svokölluð burðardýr.

Virðulegur forseti. Í Bangkok-reglum Sameinuðu þjóðanna segir að mjög fáar konur eigi erindi í öryggisfangelsi og að fangelsin séu almennt gagnslaus og skaðleg lausn á afbrotavanda kvenna og komi jafnvel í veg fyrir að þær aðlagist samfélaginu á ný. Þess vegna er fyrirspurn mín til dómsmálaráðherra þessi:

„1. Er gert ráð fyrir konum í nýju fangelsi á Litla-Hrauni?

2. Er áætlað að vista konur áfram í öryggisfangelsi á Hólmsheiði?

3. Verður fangelsisvist að fullu kynjaskipt?

4. Hversu mikla þörf telur ráðherra á öryggisfangelsi fyrir konur á Íslandi?

Skriflegt svar óskast.“