154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[14:54]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og raunar átti ég von á að fá spurningu af þessu tagi úr þingflokki hv. þingmanns sem hefur haldið mjög vel til haga þeim sjónarmiðum sem lúta að ákveðnum efasemdum sem varða einmitt samstarf og samráð. Hér er verið að fara leið sem er leiðin sem Finnar framkvæma og gera með þessum hætti og hafa ekki fengið athugasemdir frá samkeppnisyfirvöldum þar. Okkur taldist til að það yrði árennilegri nálgun heldur en sú sem áður hafði komið fyrir sjónir samfélagsins í samráðsgátt og voru gerðar miklar athugasemdir við.

Mér skilst í sjálfu sér að vinnan gangi vel. Eins og hv. þingmaður veit þá eru ráðuneytisstjórar sem eru að funda með ýmsum hagaðilum, m.a. Bændasamtökunum og lánastofnunum, og gagnasöfnun hefur gengið vel o.s.frv.

Mótun tillagna er í vinnslu og það má eiginlega segja að milliuppgjör, ef við getum sagt sem svo, eða það sem ég hef séð hingað til, bendi til þess að staðan sé umtalsvert mismunandi eftir hópum innan Bændasamtakanna og mismunandi búgreina. Það verður að greiða úr þeirri stöðu eins og hægt er en ég geri ráð fyrir að fá tillögur núna í lok mánaðarins. En það breytir því ekki, sem hv. þingmaður sannarlega kemur að í sinni fyrirspurn, að fyrirkomulagið sem við búum við núna, sem að hluta til kallar á að við séum í raun og veru ítrekað að standa frammi fyrir því að það þurfi að grípa til einhvers konar skyndiráðstafana, er ekki fyrirkomulag sem er viðunandi fyrir íslenskan landbúnað þegar til lengri tíma er litið. Ég kem vonandi betur að því í mínu seinna andsvari. En ég held að það sem er núna fram undan og ekki í fyrsta skipti (Forseti hringir.) sé tilefni til að skoða kjör og umhverfi innlends landbúnaðar frá grunni.