154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[14:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið og ítreka bara að það verður áhugavert og gott að ná að fylgja þessum málum eftir í atvinnuveganefnd. Mig langaði kannski aðeins að bæta við fyrri spurningu vegna þessarar heimildar sem núna er ætlunin að lögfesta, að manni sýnist að þetta verkefni bætist við Samkeppniseftirlitið. Það hefur nú töluvert gustað um þá ágætu stofnun undanfarið, m.a. vegna þess að hún býr við það að vera með hluta af verkefnunum á sinni könnu lögbundin og önnur ekki. Hún tekur önnur verkefni þegar þeim er til hennar vísað, kvörtunum eða ábendingum eða öðru slíku, og síðan eru náttúrlega einstaka mál önnur sem koma upp.

Telur ráðherra Samkeppniseftirlitið, eins og það er fjármagnað núna og eins og verkefnin sem þeirri stofnun eru falin, sé í stakk búið til að bæta þessu á sig án einhverrar fjölgunar eða einhvers konar breytingar? Það hefur stundum verið talað um einhvers konar breytingu á þessum lögbundnu verkefnum, að auka frest eða annað slíkt. Hefur það eitthvað verið skoðað til að tryggja að þetta verkefni falli ekki á milli skips og bryggju?