154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[14:58]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjármögnun eftirlitsstofnananna er viðfangsefni sem er stöðugt umfjöllunarefni hér í þinginu og ég deili þeirri sýn hv. þingmanns að þar þurfi að gæta að því að lögbundin verkefni stofnananna séu þannig að þau séu fjármögnuð svo sómi sé að.

Mig langar að víkja aftur að spurningunni um frumvarpið sem slíkt, vegna þess að það skiptir máli að halda því til haga að vinnandi fólk sækir bætt kjör í gegnum samstöðu til atvinnurekenda. En í núverandi kerfi er framleiðendum búvara, þ.e. bændum, óheimilt að nýta sína samstöðu til kjarabóta. Þetta er í raun og veru grundvallarútgangspunkturinn í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Því má í raun og veru segja að einu leiðirnar til kjarabóta fyrir bændur séu annars vegar aukin framleiðni og hins vegar hækkað afurðaverð. Sambærilegar heimildir fyrir félög framleiðenda og í nágrannalöndunum munu hjálpa þeim til þess að ná aukinni samlegð með því að standa saman til að bæta þessa stöðu.

Félög framleiðenda í Evrópu eru mjög fjölbreytt og þau eru með öllu mögulegu móti. Sums staðar eru þetta samþætt félög sem eiga og reka ýmiss konar starfsemi. Stundum eru þetta félög sem eiga engar tilteknar eignir en beita sér í krafti sameiginlegrar kröfugerðar, og við sjáum það sums staðar í Evrópu, þar sem er í raun og veru meiri hefð fyrir slíku, að frumframleiðendur leggja saman sína krafta í því skyni að bæta sína afkomu. Öll þessi félög hafa sína stöðu og sitt hlutverk, en ég held að það sé bara mjög mikilvægt að nefndin fái ráðrúm til þess að skoða þetta mjög víðtækt.

Þessi tillaga sem hér kemur fram er ein tilraun til að nálgast þetta út frá því sem er heimilt í nágrannalandi (Forseti hringir.) og þar sem það hefur gefist vel án athugasemda frá samkeppnisyfirvöldum. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé kominn tími til að íslenska þingið fái að glíma við þetta sem eitt af mörgum skrefum til að bæta hag bænda.