154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:14]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni spurninguna og ætla bara að vinda mér í svarið sem snýr að undanþágu frá 71. gr. búvörulaga. Jú, vissulega ber þetta að sama brunni en það er verið að nálgast hlutina á annan hátt þó að markmiðið, samkvæmt mínum skilningi, sé það sama. Þetta snýst alltaf um það hvernig við nálgumst hlutina.

Í annarri spurningu sinni kemur hv. þingmaður inn á það sem snýr að verkaskiptingu innan slátrunar og vinnslu og hvernig við náum utan um það. Ég kom, held ég, ágætlega inn á það í minni ræðu hér áðan að það sem er náttúrlega verið að hrópa eftir er að ná fram ákveðinni hagræðingu. Hvort þetta frumvarp sem hér um ræðir frá hæstv. matvælaráðherra rúmar þarna allt saman innan dyra þá verðum við að hafa það í huga að þegar við förum í 71. gr. búvörulaga — það er undanþága frá 71. gr. sem er fjallað um þar, ekkert ósvipað því sem við erum með í mjólkurframleiðslunni.

Hlutirnir eru með öðrum hætti þegar við komum að framleiðslu á grænmeti, kjöti og eggjum eða einhverju öðru þar sem menn hafa þessi framleiðendafélög, við erum að tala um miklu víðara samhengi í því máli.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis varðandi hagræðingarmöguleika. Það hefur verið talað um að hagræðing innan sláturgeirans geti skilað okkur allt frá 1,5–2 milljörðum upp í 3 eða 4 milljarða, eitthvað svoleiðis. Ég verð bara að koma betur inn á það í seinna andsvari.