154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Varðandi hagræðinguna sem þetta mun leiða af sér — mun þá ekki afurðastöðvum fækka? Eftir því sem ég veit best eru þrjár afurðastöðvar í mínu kjördæmi, á Hvammstanga, Blönduósi og Sauðárkróki. Er fækkun afurðastöðva fyrirsjáanleg ef þetta frumvarp nær fram að ganga og mun þá bara markaðurinn stjórna því hvaða afurðastöðvar munu lifa af eða munu stjórnvöld koma nánar að því?

Svo er annað sem varðar afurðastöðvarnar. Núna er skylda að dýralæknir sé alltaf viðstaddur þegar slátrað er. Væri ekki bara betra að taka upp innra gæðakerfi við slátrunina? Eru ekki aðrar leiðir en þær að gera einungis samkomulag um verkaskiptingu og fækka afurðastöðvunum? Þarf ekki að einfalda regluverkið sem afurðastöðvarnar búa við í dag? Það er einfaldlega of mikið að þurfa að hafa dýralækni viðstaddan alltaf þegar verið að slátra. Gæti innra gæðakerfi ekki komið nánar þar að?

Það er annað sem mig langar að spyrja um. Ég veit að þetta mun vissulega geta bætt stöðu bænda og það er tilgangurinn að hagræða á þessu sviði. Ég er búinn að heyra frá því ég var barn í sveit, á sauðfjárbúi á Vestfjörðum, að sláturhúsin tækju mest, svo væru það milliliðirnir og síðan ætti að flytja þetta allt saman út, þetta væri svo gott kjöt og svoleiðis, sem það er náttúrlega. En þetta er ég búinn að heyra frá því ég var táningur eiginlega, ef ekki fyrr, þannig að við erum enn í sömu sporum að tala um afurðastöðvarnar. Það sem mig langar að spyrja um er varðandi félögin. Það er talað um að félag frumframleiðanda eigi að lágmarki yfir 51% atkvæða. Það er bara verið að tala um það að bændur eigi þá 51% og það er engin nánari skilgreiningin á því. Núna erum við t.d. með hobbíbændur og annað slíkt (Forseti hringir.) og mér finnst þetta skilyrði um 51% atkvæða í félaginu — þarf ekki að taka meira á málum þeirra bænda (Forseti hringir.) sem eru með það sem fullt starf og þá kannski að minnka stuðning við hobbíbændurna?