154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:19]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að halda mig við það mál sem við erum að ræða hérna. Það sem tilheyrir dýralæknum og því hvort menn séu hobbíbændur eða venjulegir bændur tilheyrir annarri umræðu. Svo að ég haldi mig við það málefni sem við erum að ræða akkúrat núna þá ætla ég að koma inn á það sem hv. þingmaður minntist á, afurðastöðvar eða sláturhús í hans kjördæmi, þ.e. á Hvammstanga, Blönduósi og Sauðárkróki. Hvammstangi og Sauðárkrókur eru nú eitt og sama batteríið og Blönduós tilheyrir Kjarnafæði Norðlenska. Jú, tilgangurinn er væntanlega sá þegar fram í sækir að ná fram hagræðingu innan þessa geira. Ég kom inn á það í minni ræðu áðan að sauðfé hefði fækkað um rúmlega 100.000 vetrarfóðraðar kindur og það segir sig sjálft að við erum með allt of marga fermetra hér hringinn í kringum landið, aðallega á Norður- og Austurlandi, af sláturhúsum. Það eru allt of margir fermetrar sem við erum að nota á ári hverju til að slátra of fáum gripum. Tilgangurinn og markmiðið með þessu frumvarpi — hvort sem það er það hjá hv. þingmanni sem hér stendur eða hæstv. matvælaráðherra eða hvort menn eru að tala um undanþágu frá 71. gr. búvörulaga — er alltaf að frumframleiðendur njóti sem mest góðs af því sem verið er að gera.

Hv. þingmaður minntist á hvernig þetta hefði verið þegar hann var barn og ætli það hafi ekki verið einhver 36 sláturhús á landinu þá, hringinn í kringum landið. En það er búið að gera alveg heilan helling í því, það eru sex, sjö sláturhús núna þar sem t.d. sauðfé er slátrað. (Forseti hringir.) Þannig að það hefur orðið þróun, hellings þróun. (Forseti hringir.) Hérna erum við að stíga stærri skref frumframleiðendum til heilla.