154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er frumvarp sem er að mörgu leyti mjög áhugavert og er ætlað að stuðla að aukinni hagkvæmni afurðastöðva með það að markmiði að auka hlut bænda í framleiðslu sinni og þeirri verðmætasköpun sem á sér stað í landbúnaði. Það er gríðarlega mikilvægt að hlutur bænda og frumframleiðanda aukist, þeir fái aukinn hluta af þeim verðmætum sem kaupandinn greiðir fyrir vöruna, fái sem stærstan hluta af því fé sem greitt er endanlega fyrir vöruna. Það hlýtur að vera markmiðið.

Þetta frumvarp er að mörgu leyti áhugavert og markmiðið mjög göfugt. En það eru ákveðin atriði sem ég tel að mætti skoða betur og ég vona að þetta sé ekki endapunkturinn þegar kemur að samruna afurðastöðva. Þetta kemur fram í frumvarpinu í 2. mgr. 1. gr., sem verður 2. mgr. 5. gr. búvörulaganna:

„Samkeppniseftirlitinu er heimilt að mæla fyrir um að einstakir samningar eða ákvarðanir framleiðenda eða framleiðendafélaga séu óheimilir, að þeim skuli breytt eða að skylt verði að láta af þeim, enda feli þeir í sér hættu á því að samkeppni sé útilokuð. Þar til slík ákvörðun hefur verið tekin skulu viðkomandi samningar eða ákvarðanir teljast lögmætir.“

Hér er verið að koma í veg fyrir að samkeppni verði útilokuð. Í 1. gr. er fjallað um það að bann við ólögmætu samráði gildi ekki um samninga milli frumframleiðenda. Samningar milli frumframleiðenda landbúnaðarafurða geta falið í sér minni samkeppni en það á greinilega einhver samkeppni að vera. Samkeppniseftirlitið getur gripið inn í ef hún er útilokuð. Það er mjög mikilvægt að við höfum þann glugga að það sé alltaf samkeppni þótt það sé verið að minnka hana hér. Það er gríðarlega mikilvægt. Eins og hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson kom inn á voru 36 afurðastöðvar í gamla daga þegar ég var ungur maður og var að rétta skotmanninum kindurnar í sláturhúsinu á Þingeyri, eftir að búið var að smala á skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, á Sléttanesi, Lokinhömrum og þar. Þá voru þær 36. Núna eru þær orðnar sjö. Ég tel mjög mikilvægt að litlar afurðastöðvar geti þrifist og það sé hægt, það sé möguleiki að stofna afurðastöð eftir að þetta frumvarp verður samþykkt og verður að lögum. Það verður að vera innganga inn á markað afurðastöðvanna, verður að vera hægt fyrir einhvern að geta tekið sig til sem hefur áhuga á að fara að slátra sauðfé, t.d. með lítilli afurðastöð, og sett á fót litla afurðastöð og hún uppfylli allar reglur og skyldur sem lagðar eru á afurðastöðvar. Það finnst mér vera mjög mikilvægt, að samkeppni verði ekki útilokuð með samningum milli frumframleiðenda. Það tel ég vera einungis gert með því að heimila að það sé möguleiki að stofna afurðastöðvar í framtíðinni. Þetta verði ekki alger einokun örfárra risa.

Þá erum við komin að regluverkinu sem ég tel að þyrfti að skoða líka og ég skora á hæstv. matvælaráðherra að skoða regluverkið og vonandi að einfalda það. Ég veit að hluti af þessu er að Evrópusambandið er að gera kröfur á okkur en það verður að einfalda þær kröfur, t.d. varðandi dýralækna og annað þegar er verið að slátra. Ég hef nú oft verið viðstaddur heimaslátrun og þetta er ekki flókin athöfn í sjálfu sér, óskemmtileg en hún er hluti af lífinu. Það er mjög mikilvægt að inngangurinn á markaðinn verði tryggður. Einungis þannig getum við stuðlað að framþróun. Ég er nú ekki sérfræðingur í þessu en við sjáum það í mjólkurframleiðslu að það eru glæsileg fyrirtæki að koma með mjólkurafurðir, ýmiss konar fyrirtæki sem maður vissi ekki að væru til, maður sér þetta bara út í búð. Það er mjög mikilvægt að þetta verði líka til í afurðastöðvunum sem geta tengst kjötvinnslunni. Þetta er grundvallaratriði, tel ég.

Það kemur fram í frumvarpinu, svo ég lesi hér úr greinargerðinni um meginefni frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að:

a. mælt verði fyrir um heimildir frumframleiðenda og félaga þeirra til að eiga með sér samstarf til að vinna að hagsmunamálum, þar með talið markaðsmálum.“

Það er gríðarlega mikilvægt að koma að markaðsmálum. Það var nú bara síðast í gær eða fyrradag, já, í sunnudagskaffi Flokks fólksins, að það var verið að tala um landbúnaðarafurðir og þá benti einn gesturinn á það að hann fengi aldrei að vita úr hvað sláturhúsi lambakjötið væri, hvar því væri slátrað og helst frá hvaða héraði það væri. Ég tel að það væri markaðsmál, að við neytendur værum upplýstir um það.

Þetta var a-liðurinn en b-liður hljóðar svo, með leyfi forseta:

„b. mælt verði fyrir um eftirlit Samkeppniseftirlitsins með framkvæmd þessara heimilda og um leið reynt að afmarka betur mörkin milli samkeppnisréttar og búvörulaga.“

Það er gríðarlega mikilvægt að gera þetta líka og þá að samkeppni sé ekki útilokuð. Við verðum að leyfa samkeppni í þessum geira, það er grundvallaratriði, og líka að innkoma inn á markaðinn sé tryggð, þ.e. inn á markað afurðastöðvanna. Ég vona að það verði gert með því að horfa til þess að það geti verið litlar einingar líka, að einstaklingar og litlir hópar geti gert það og þá frumframleiðendur líka. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Síðasti liðurinn um meginefni frumvarpsins er, með leyfi forseta,

„c. skilyrði þess að félag teljist til framleiðendafélags verði skilgreind sérstaklega.“

Það er lagt til með frumvarpi þessu að skilyrðin verði skilgreind sérstaklega. Ef við skoðum frumvarpið þá sjáum við að með 2. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein við 81. gr. búvörulaga, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal setja með reglugerð frekari skilyrði um framleiðendafélög, sbr. III. kafla laganna, þar á meðal um starfshætti, lágmarksfjölda félaga, félagsaðild, skyldur framleiðenda gagnvart félagi og upplýsingagjöf.“

Þessi III. kafli er raunverulega 1. gr. frumvarpsins því að í dag eru engin ákvæði í III. kafla búvörulaga. 1. gr. frumvarpsins verður að 5. og 6. gr. í III. kafla laganna. Ég tel að hér sé verið að gefa ráðherra gríðarlega mikið vald með reglugerðarheimild. Mér finnst, ég horfi á þetta með gagnrýnum augum og gæti verið innlegg til vinnslu í atvinnuveganefnd, að þetta meginefni frumvarpsins, að leggja til að skilyrði þess að félag teljist vera framleiðendafélag verði skilgreind sérstaklega — ég tel að ráðherra hafi fengið mikið vald til að skilgreina hvað er framleiðendafélag með því að geta kveða á um starfshætti þess, lágmarksfjölda félaga, félagsaðild, skyldur framleiðenda gagnvart félagi og upplýsingagjöf. Mér finnst í fljótu bragði að hluti af þessu sem er talið þarna upp eigi að vera í lögunum, t.d. það hvað telst vera frumframleiðandi. Frumframleiðendur verða að lágmarki að ráða 51% atkvæða í félaginu. Hverjir eru frumframleiðendur? Jú, það eru bændur. Bóndi með 100 kinda bú og bóndi með 800 kinda bú, hafa þeir jafn mikið vægi, atkvæðavægi í félaginu? Hvernig er það skilgreint, þ.e. félagsaðildin? Ég sé hér hv. þm. Þórarin Inga Pétursson, formann atvinnuveganefndar, og ég skora á atvinnuveganefnd, ég á því miður ekki sæti í henni, að skoða þetta atriði, nefndin mætti skoða það svo að við getum sagt með reisn að Alþingi hafi samþykkt frumvarp þar sem skilyrði þess að félag teljist til framleiðendafélas séu skilgreind sérstaklega og það sé skilgreint sérstaklega í lögunum. Það verður meiri festa ef það verður í lögunum.

Varðandi félagaformið þá kemur fram að það getur verið hlutafélag, einkahlutafélag, samvinnufélag eða sameignarfélag og það er gott og blessað. Við getum líka séð fram á að 49% verði kannski fjárfestar og gerðar ákveðnar ávöxtunarkröfur og annað slíkt. En það er mjög mikilvægt að frumframleiðendurnir ráði þessum félögum, þ.e. bændurnir, að ágóðinn af þessum samningum fari til þeirra fyrst og fremst. Það er auðvelt að eiga félag með 49% hlut og ráða nánast öllu. Meira að segja er það talið þannig í hlutafélagarétti að ef þú átt 35% þá eru engar meiri háttar ákvarðanir teknar nema 35% eigandinn samþykki það. Af hverju er það? Það er af því að hinir eru svo dreifðir. Það er ekkert sem segir að frumframleiðendurnir komi fram sem ein heild á móti 49%, það þarf ekkert að vera þannig. Ég get tekið dæmi með ríkisbankann í Noregi, DNB, hann er eign ríkisins, 35%, vegna þess að þeir ætla að stjórna öllum meginákvörðunum. Þannig að þetta er atriði sem mætti skoða, t.d. kveða á um að frumframleiðendur þurfi að koma að öllum meiri háttar ákvörðunum, það sé ekki nægilegt að 49% hlutinn og kannski 2% af frumframleiðendunum, þá eru komin 51%, taki meiri háttar ákvarðanir sem eru stefnumarkandi fyrir svona félög. Ég vona að frumframleiðendur stjórni þessum félögum algjörlega, ekki bara 49% plús 2% sem gera 51% þannig að 49% frumframleiðenda er þá í minni hluta. Ég tel mjög mikilvægt að þetta sé algjörlega á forræði bænda og þeir taki allar meiri háttar ákvarðanir þó að sjálfsögðu sé hagsmuna minni hlutans alltaf gætt eins og í öllum þessum félagaformum.

Ég tel að þetta sé rétt skref að mörgu leyti. Það er mjög mikilvægt að auka hagkvæmni hjá afurðastöðvunum en við þurfum að passa það að útiloka ekki samkeppni og nýliðun innan afurðastöðvanna. Það er grundvallaratriði að mínu viti vegna þess að nýliðun er gríðarlega mikilvæg upp á framþróun. Það getur vel verið að stjórnendur þessara stóru fyrirtækja séu ekki að fá nýjar hugmyndir. Nýjar hugmyndir vaxa oft í sprotafyrirtækjum, litlum fyrirtækjum sem koma með hugmynd og vilja prófa sig á markaðnum. Þessi inngangur inn á markaðinn er gríðarlega mikilvægur og ég vona að það verði skoðað sérstaklega. Ég vona að þetta verði bændum — mér finnst þetta orð, frumframleiðendur, svolítið stofnanalegt — til góða, ég vona að bændur fái að njóta ágóðans af þeim samruna sem verður sem frumframleiðendur landbúnaðarafurða. Það er markmiðið og ég vona að það takist sem allra best. En þetta getur verið flókið mál þegar við förum að skoða svona félög sérstaklega út frá félagarétti og líka þetta með heimildir ráðherra varðandi félagsaðild, lágmarksfélagafjölda og skyldur framleiðendanna gagnvart félaginu.