154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[16:03]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni spurninguna. Svo það sé sagt, örsnöggt, þá eru nú ákveðnir samningar á milli þess stóra og þess litla eins og þegar kemur að mjólkinni. Það verður að hafa það í huga að Mjólkursamsalan safnar t.d. allri mjólk. Mjólkursamsalan sömuleiðis afhendir ákveðið magn af mjólk til viðkomandi aðila og tekur sömuleiðis til baka það sem ekki er nýtt í þeirra framleiðslu. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Þegar við komum að minni framleiðendum og slátrun og þess háttar þá er það nú þannig í dag að hverjum þeim sem leggur inn dilkakjöt eða nautakjöt eða hvað sem það er er heimilt að láta slátra fyrir sig og taka skrokkana til baka í sína eigin vinnslu. Það er sömuleiðis áskorun framtíðarinnar hvernig við útfærum heimaslátrun og það regluverk sem er í kringum hana því að það er því miður allt of torvelt. Við þekkjum ágætt dæmi þess norðan úr Skagafirði, þar héldu nú ábúendur og bændur áfram og eru að stunda þessa iðju enn í dag og eru að selja sínar vörur með því regluverki sem þar er undir. Við getum svo sem alveg horft til þess, og ég er alveg sammála hv. þingmanni, að við þurfum að gæta að öllum þeim reglum og leikreglum sem við förum eftir. En þessir möguleikar eru allir fyrir hendi og mér finnst vera gætt að því að þegar vissir framleiðendur fá aukið vægi eða auknar heimildir til samstarfs þá eigi lögin að grípa utan um það og gæta að þeim sem minni eru.