154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[16:05]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Að hluta til kom hann að því sem ég ætlaði í seinna andsvari að spyrja um, það var heimaslátrunin, ég ætlaði að bomba því inn í seinna skiptið en hann svaraði því að hluta. Ég ætla samt að halda aðeins áfram með heimaslátrunina og það að nokkrir bændur geti tekið sig saman og slátrað búfé sínu. Hann minntist á að einfalda það regluverk og það er eiginlega það sem ég var að tala um að hluta til varðandi regluverk afurðastöðvanna. Þarf ekki að einfalda það þannig að heimaslátrun og minni stöðvarnar passi inn í það? Þarf að hafa sérregluverk fyrir heimaslátrunina? Kannski þarf sérheimildir eða -leyfi, en er þetta svo dýrt ferli að það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir heimaslátruðu eða þá að fimm, sex, sjö bændur taki sig saman og slátri sínu fé heima í héraði? Til dæmis í Skagafirði, hann nefndi dæmi um það. Er ekki bara kominn tími til að endurskoða það regluverk þannig að það verði auðveldara að fara inn á þennan markað hreinlega? Annar hver bóndi ákveður að slátra einn — og þá erum við alltaf komin með dýralækninn. Ef það er innra gæðakerfi við slátrun, er það þá ekki nægjanlegt og uppfyllir öll skilyrðin? Þarf dýralæknir að horfa í augun á hverri kind sem er slátrað? Það væri gaman að fá að heyra álit hv. þingmanns á þessu, hvort það sé ekki kominn tími til. Ég skora hér með á hæstv. matvælaráðherra að skoða þetta. Þetta er þá kannski efni í þingsályktunartillögu sem við gætum verið saman á, um að stuðla að þessu með heimaslátrun og að hópar bænda geti tekið sig saman og slátrað saman. Þarf mikið til? Segjum að fimm bændur komi saman og slátri saman. Er stofnkostnaður það mikill og er regluverkið það dýrt að það borgar sig ekki? Stóri aðilinn hefur alltaf vinninginn.