154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kvikmyndalög.

486. mál
[16:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er gott og blessað að það sé þegar kominn peningur fyrir þessu inni í einhverjum ramma o.s.frv., hluti af honum til, kemur úr öðrum verkefnum eða hagræðingu eða hvernig sem það er. En það skiptir ekki máli. Það á að koma fram í frumvarpinu hvað er áætlað að þessi breyting kosti til þess að það sé hægt að fylgja því eftir, t.d. í eftirliti með framkvæmd fjárlaga, fylgja því eftir hvort markmiðin sem eru sett í lögum skili sér fyrir þann pening sem var áætlað að þau myndu kosta. Það er þess vegna sem við erum að glíma við allt þetta rugl í fjárlögum, það er alltaf talað um þennan ramma, risastóra ramma sem er troðfullur af heilum hellingi af milljörðum. Maður fer að pæla í því: Bíddu, af hverju kosta fjárlögin svona mikinn pening? Er það út af þessum lögum eða hinum lögunum? Þá getur enginn svarað neinu og það getur enginn sagt mér: Þessi lög kosta þetta mikinn pening. Ég veit ekkert hvað þessi lagabreyting kostar eða er áætlað að hún kosti. Ef það er þegar búið að setja peninga í þessi verkefni sem eru hérna undir þá ætti að vera enn þá auðveldara að segja hvað þau kosta þannig að ég kaupi ekki alveg svör ráðherra og kalla aftur eftir því hver upphæðin er á bak við þetta til þess að geta skoðað eftir á hvort þetta sé góð nýting á almannafé.