154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[17:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, það er ýmislegt í þessari lengri tíma mynd sem á aðeins eftir að útfæra. Meginmarkmiðið er að það sé algjörlega ljóst að það að kaupa, eiga og reka hreinorkubíl sé betra fyrir buddu heimilisins heldur en bensín- eða dísilbíl til lengri tíma. Þess vegna stígum við þetta skref núna, og tökum tengiltvinnbílinn ekki lengra vegna þess að með þeim ertu enn þá milli kerfa. Síðan þegar vörugjöldin falla brott, þá náttúrlega erum við með markmið um þessi kolefnisgjöld sem verður alltaf ofan á. Þú borgar þá ekki bara fyrir að nota vegina heldur líka fyrir losun. Það er gagnsærra kerfi að þú sért þá bara að borga fyrir losunina en ekki að greiða vörugjöld ofan á vöruna sem þú kaupir sem síðan er að losa. Þess vegna eru hugmyndirnar þar um að jafna í rauninni lækkun á bensíni og hækkun á dísil af því að það er meiri losun af því.

Varðandi áframhaldandi stuðning gagnvart rafbílakaupum og orkuskiptum, þá heldur hann áfram. En kerfið eins og það hefur verið núna, með ívilnanir á virðisaukaskatti, kallar á útgjöld ef svo má segja, allt að 12 milljarða á ári en nú er verið að fara niður í 7,5. Það þýðir að það er minni stuðningur sem er að fara í þau orkuskipti en ég tel þó að það sé áfram verið að styðja við breytta neysluhegðun og fólk kaupi frekar þessa tegund bíla. Það er stillt þannig af að það er í rauninni viðbótarstuðningur þegar bifreiðarnar eru ódýrari, sem ég tel líka eðlilegra. Það er vissulega í stærri myndinni til lengri tíma ákveðin atriði sem við eigum eftir að finna út úr. En þetta skref er skýrt. (Forseti hringir.) Sýnin er þarna en það þarf að útfæra framhaldsskrefin.