154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[17:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Einmitt. Stærri myndin er dálítið mikilvæg í þessu því að fjárhagsleg áhrif sem við verðum að glíma við vegna loftslagsbreytinga eru þó nokkur vegna þeirra skuldbindinga sem liggja þar á bak við. Algjörlega óháð því hvað fólki finnst um loftslagsbreytingar og þess háttar þá erum við með skuldbindingar þar á bak við sem munu kosta okkur fjármuni ef við náum ekki ákveðnum markmiðum. Markmiðin sem slík eru mjög góð, samfélagið sem við fáum, ef við náum þeim markmiðum á góðum tíma og því fyrr því betra, verður mun betra samfélag. Í þessa stóru mynd er óþægilegt að það vanti inn í, vanti í púsluspilið, eins og hvað er að koma úr Orkusjóði eða loftslagssjóði til að koma til móts við þessar ívilnanir sem féllu niður og þá líka, ekki bara vegna bifreiðanna heldur einnig vegna almenningssamgangna og hjólreiða. Til dæmis eru hjól að falla þarna út líka. Við upplifðum það t.d. í Covid að Strætó var gert í rauninni að ganga á sína sjóði sem hann var búinn að safna upp í til að kaupa vagna sem voru að fara í áttina að orkuskiptunum og hefur þá ekki efni á því lengur af því að það var gengið á það fjármagn. Þar töfðust orkuskipti um þann tíma a.m.k., nema eitthvað annað sé í bígerð sem við höfum ekki frétt af. Það væri mjög gott núna, tveimur árum eftir að þessi ríkisstjórn tók aftur til starfa og setti sér ný markmið varðandi loftslagsáhrifin og loftslagsbreytingarnar, að við færum að sjá á öll spilin, ekki bara hálfpúslaða mynd þar sem eru stór göt.