154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[17:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu um þetta en vildi koma hingað upp vegna þess að mér finnst þetta frumvarp að mörgu leyti vera skiljanlegt. Öll áttum við okkur á ástæðum þess að það þarf að breyta tekjustofnum sem liggja til grundvallar ökutækjanotkun. Við viljum mjög gjarnan færa okkur úr bílum sem drifnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti og yfir í hreinni orku. Það er auðvitað almennt umhugsunarefni hvort það sé skynsamlegt að draga mikið úr ívilnunum núna, eins og gert verður um áramót, en það er aftur önnur umræða. Það er líka umhugsunarefni að á sama tíma og við ætlum þó í gegnum Orkusjóð að ýta fólki yfir í bíla sem keyra á rafmagni þá eru mjög víða, á landsbyggðinni sérstaklega, innviðir með þeim hætti að fólki er kannski illa gert kleift að nýta sér þennan kost. Það verður auðvitað að vera forsendan fyrir þessum orkuskiptum að það verði hægt að gera þetta alls staðar.

En almennt er ég sammála því að þeir greiði sem noti vegna þess að þetta snýst ekki bara um útblástur bíla, þetta snýst auðvitað um slit á vegum. Í rauninni er kannski ekki neitt til sem heitir grænn einkabíll. Vissulega eru rafmagnsbílar vistvænni en þeir eru í eðli sínu ekki grænir. Það er tvennt sem einkennir bílinn síðustu 70, 80 árin. Það er auðvitað sá veruleiki að hann spýr út úr sér efnum sem eru slæm fyrir umhverfið en svo er það hreyfanleiki bílsins sem hefur í rauninni haft miklu meiri áhrif á þetta sýnilega umhverfi okkar heldur en við gerum okkur nokkurn tímann grein fyrir. Þessar fallegu borgir sem við ferðumst til og viljum fara að skoða, þessar evrópsku blönduðu, þéttu borgir, eru byggðar upp í veruleika þar sem bíllinn er ekki til og möguleiki til að hreyfa sig á milli staða ekki sá sami og hann er í dag. Fólki var nauðugur einn kostur að byggja skynsamlega, að vera með verslanir á jarðhæðum og íbúðir þar fyrir ofan og verksmiðjur og annað nálægt og gjarnan var þetta svo tengt með almenningssamgöngum.

Þessi nýi veruleiki síðustu áratugina hefur breytt borgunum okkar úr þessari þéttu, evrópsku byggð yfir í þessa bandarísku bílaborg, ef við getum kallað hana það, sem byggist á flokkun og aðgreiningu, þar sem þú býrð á einum stað, vinnur á öðrum stað, sækir afþreyingu á þriðja stað og þetta er svo allt tengt saman með götum og oft stórum umferðarmannvirkjum. Þetta er eitthvað sem okkur þykir síðra. Margar borgir og flestar borgir, Reykjavík þar á meðal, eru að reyna að vinda ofan af þessu og sigla aftur yfir í hina ákjósanlegu byggð. Forsendan fyrir því að það takist eru svo auðvitað góðar almenningssamgöngur. Við eigum alveg möguleika á því að byggja þær upp hér í þéttbýlinu á suðvesturhorninu svo að einhverju nemi þannig að þær verði valkostur við einkabílinn. Það er hins vegar erfiðara úti á landi. Við getum haldið úti einhverjum almenningssamgöngum og höfum verið að gera það, þó að í allt of litlum mæli sé, en þær verða ekki valkostur fyrir landsbyggðarfólk.

Þá vil ég taka undir áhyggjur hv. þm. Birgis Þórarinssonar. Það þarf að huga vel að því hvaða áhrif þetta hefur á fólk sem kýs að búa í dreifbýlinu eða hefur fæðst þar og ekki haft möguleika á því að flytja þaðan. Það þarf oft að sækja vinnu um langan veg en það þarf líka að sækja ýmsa þjónustu, vegna þess að við erum búin að byggja upp 70–80% af öllum íbúðum á sama staðnum. Og það var alveg skynsamleg hugsun vegna þess að við þurftum að eignast eina borg sem innihélt menningarstofnanir, dómstóla, heilbrigðisstofnun og háskóla og annað slíkt en það þarf að gefa öllu fólkinu sem býr annars staðar kost á því að nýta sér þessa þjónustu. Það má ekki vera með þeim hætti að það kosti þá þetta fólk miklu meira en aðra að nýta sér þá sjálfsögðu þjónustu sem í sumum tilfellum er bundin í lög, eins og réttinn til fullnægjandi læknisþjónustu t.d. Ég tek því undir með hv. þingmanni að þá hljótum við samhliða þessari þróun, sem við verðum augljóslega að fara í og ég styð í grunninn, að skoða þær mótvægisaðgerðir sem nágrannar okkar í Noregi og Danmörku og víðar hafa gripið til, að í þeim tilfellum þar sem fólk þarf á einkabílnum að halda og þarf um langan veg að fara, jafnvel oft í viku, verði þá hægt með einhverjum hætti að fá skattafslátt eða aðra ívilnun á móti.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom líka inn á að það væri fjölmennur hópur sem byggi í úthverfum höfuðborgarinnar og í næstu byggðum við höfuðborgina og sækti vinnu hér daglega. Það er líka þekkt þróun þessara bílaborga að miðborgirnar voru dýrari. Það var möguleiki að reisa gisnari byggð þegar einkabíllinn kom til sögunnar þannig að úthverfavæðingin varð allsráðandi. Fólk sótti oft þangað vegna þess að húsnæði var ódýrara en síðan runnu náttúrlega á fólk tvær og þrjár grímur jafnvel þegar það áttaði sig á því að bifreiðakostnaðurinn á móti gerði þennan sparnað að engu. Þetta er því ekki skynsamleg hugsun en þetta er í rauninni eitthvað sem Vesturlandabúar hafa þróað síðustu áratugi og við þurfum einhvern veginn að vinda ofan af. Og á meðan við erum að vinda ofan af því þurfum við að koma í veg fyrir að þetta bitni á því fólki sem er í þessari stöðu.

Að því slepptu þá finnst mér í rauninni þetta frumvarp að mörgu leyti vera eðlilegt skref í þeim breytingum sem við erum að ganga í gegnum og við viljum sjá að við förum úr bílum, knúnum áfram af jarðefnaeldsneyti, sem við getum þá skattlagt í minna mæli, og færum okkur yfir í kílómetragjöld. Eins og ég skil hæstv. ráðherra þá liggur það fyrir að í framtíðinni muni allir borga þessi kílómetragjöld. Það má svo skoða það hvernig við getum jafnað aðstöðu fólks, annaðhvort með skattaívilnun eða einhverjum föstum gjöldum, eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á.

Að lokum, herra forseti, þá hitti ég bónda framan úr Bárðardal, innst í Bárðardal, og hann keyrir á nýjum og fínum rafmagnsbíl. Hann sagði við mig: Ég er alveg til í að borga þetta kílómetragjald en ég vildi gjarnan hafa vegi til að keyra á.

Það beinir náttúrlega sjónum okkar að því líka að við eigum eftir að byggja upp okkar grunnumferðarnet og það þarf auðvitað að haldast í hendur við það að rukka fólk fyrir að keyra. Það er varla hægt að gera það vegna aksturs á vegum eins og eru inn Bárðardalinn.