154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að senda góðar óskir til Grindvíkinga eins og margir hafa gert hér síðustu daga. Það er aðdáunarvert að fylgjast með yfirvegun og æðruleysi þeirra í glímunni við áföll og óvissu og ég óska þess að það gangi sem allra best dagana sem fram undan eru.

En það sem ég ætla að ræða hér í dag er fitubjúgur, sem er sjúkdómur sem leggst frekar á konur en karla. Fitubjúgur er óeðlileg fitusöfnun og bjúgur á útlimum, einkum fótum; fitusöfnun sem fylgt geta verkir, sár og mikið álag á stoðkerfi og önnur líffærakerfi. Fitubjúgur kemur oft fram í tengslum við hormónabreytingar, svo sem kynþroska, þungun eða tíðahvörf og hann er að einhverju leyti tengdur erfðum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins veitir þjónustu vegna þessa sjúkdóms undir hatti kvenheilsu. Tíðnin er 11% í löndunum í kringum okkur en við þekkjum hana ekki hér. Sjúkdómnum var lengi ruglað saman við offitu.

Sjúkratryggingar hafa til þessa ekki tekið þátt í kostnaði við aðgerðir vegna fitubjúgs og ýmislegt er óljóst varðandi kostnaðarþátttöku við stoð- og hjálpartæki sem létt geta sjúklingum lífið. Sjúklingar hafa á síðustu mánuðum verið að undirgangast meðferð á eigin kostnað erlendis. Ég hef átt samtöl við hæstv. heilbrigðisráðherra um málið og legg í dag fram fyrirspurn til hans varðandi kostnaðarþátttöku. Sú fyrirspurn er viðbót við fyrirspurn sem hv. varaþingmaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, lagði fram á vorþingi. Í svari til hennar kom m.a. fram að aukin þekking hafi myndast á sjúkdómnum undanfarin ár og stórar rannsóknir séu í gangi erlendis til að meta árangur sérhæfðra aðgerða. Ég trúi að heilbrigðisyfirvöld nýti niðurstöður úr þeim rannsóknum og bregðist við með þátttöku í kostnaði við hvers konar viðurkennda meðferð við sjúkdómnum.