154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Íslenskt atvinnulíf og samfélag á allt undir því að börnin okkar komi heilsteypt og full sjálfstrausts út úr menntasögu sinni. Læsi er þar lykilbreyta. Tungumálið opnar dyr að menningu þjóða og hefur reynst lykilþáttur í inngildingu þeirra sem flytjast til Íslands. Undanfarin ár hafa komið fram mælingar sem sýna vaxandi áskorun íslenskra barna þegar kemur að lestri og málskilningi. PISA-niðurstöður sýna til að mynda að 34,4% íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og nær fimmtungur stúlkna. Á þessu ári hefur verið umfangsmikil úttekt í gangi á vegum menntamálaráðuneytisins um stöðu drengja í íslensku skólakerfi og eru heildarniðurstöður væntanlegar á næstu misserum. Samkvæmt menntamálaráðuneytinu er ein lykilniðurstaða úr þeirri vinnu að íslensk börn, sérstaklega drengir, þurfi aukinn tungumálastuðning, þá helst á fyrstu árunum á menntagöngu sinni. Rannsóknir sýna skýrt að menntatækni getur spilað stórt hlutverk í því að þróa einstaklingsmiðaðra nám sem eflir þekkingu og færni barna í máltjáningu og málskilningi samhliða lestrarkennslu. Þannig getum við byggt upp þá lestrarfærni sem velmegunarsamfélag eins og Ísland á að státa sig af.

Mig langar því að nýta tækifærið hér í störfum þingsins til þess að minnast á gífurlega flott verkefni sem er nú í gangi en undanfarin misseri hefur verið unnið að staðfærslu á finnska lestrartölvuleiknum Graphogame sem hefur verið aðgengilegur öllum finnskum börnum undanfarin ár í lestrarnámi þeirra með góðum árangri. Leikurinn grípur börn í grunnundirstöðu lestrar, aðlagar sig getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta leið. Það er hreint út sagt frábært að við höfum nú fengið íslenska þýðingu á þessum leik. Kópavogur hyggst fyrst sveitarfélaga reyna þennan leik og ég bíð spennt eftir að sjá niðurstöðurnar sem út úr því koma.