154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í frumvarpi til laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ er gert ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og framlag í lífeyrissjóð viðkomandi starfsfólks. Það er gert ráð fyrir að upphæðin sé 633.000 kr. og með 11,5% viðbótarstuðningi í lífeyrissjóð er gert ráð fyrir að stuðningurinn geti að hámarki orðið 705.795 kr. vegna hvers einstaklings. En þessi upphæð var sett inn 2018. Ef hún væri uppreiknað í dag samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa þá ætti hún að vera um 910.000 kr. og rúmlega 1 millj. kr. með lífeyrissjóðsframlagi. Þessi mismunur skerðir illa launagreiðslur til fjölda launamanna í Grindavík. Það virðist vera reglan frekar en undantekning hjá þessari ríkisstjórn að styrkir og frítekjumörk haldist óbreytt í nokkur ár eða jafnvel áratugi án þess að hækka samkvæmt vísitölu launa. Með þessum vinnubrögðum er ríkisstjórnin vísvitandi og viljandi að skerða stórlega tekjur og styrki fólks og valda þeim þannig fjárhagslegu tjóni. Þetta er mjög áberandi í almannatryggingakerfinu og virðist hafa smitast vel og vendilega yfir í launakerfi vinnandi fólks, t.d. ætti 200.000 kr. frítekjumark almannatrygginga að vera nærri helmingi hærra fyrir alla ef rétt væri og þá ætti 25.000 kr. frítekjumark lífeyrislauna að vera nærri 50.000 kr. ef það væri rétt uppfært. Þá er það alveg óverjandi með öllu að verst settu öryrkjar séu með fjárhagslegan hnút í maganum þegar þeir hætta að vera öryrkjar og fara yfir í ellilífeyriskerfið og verða — hvað? Heilbrigðir eldri borgarar í boði ríkisins? Hvað skeður við það? Þeir missa 28.000 kr. á mánuði eða 336.000 kr. á ári sem er á allan hátt mjög óeðlilegt og fjárhagslegt ofbeldi. Fólki sem er búið að vera veikt á fátæktarlaunum alla sína ævi er refsað fjárhagslega fyrir að fara á ellilífeyri. Það ætti að hækka um 28.000 kr. á mánuði, ekki að ræna það þeirri upphæð. Skammist ykkar, þið sem berið ábyrgð á þessu óréttlæti, ef þið kunnið það þá.