154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum féll dómur í héraðsdómi Vestfjarða þar sem Arnarlax var sýknaður af kröfu Vesturbyggðar um greiðslu á hækkuðu aflagjaldi fyrir löndun eldislax í höfnum sveitarfélagsins. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að eldisfiskur væri ekki sjávarafli og félli því ekki undir ákvæði 17. gr. hafnalaga og þar með væri ekki lagastoð fyrir aflagjöldum fyrir eldisfisk úr sjókvíaeldi. Þetta setur sveitarfélögin sem hýsa sjókvíaeldi í verulega vonda stöðu. Sveitarfélögin hafa byggt upp innviði til að mæta nýrri og stækkandi atvinnugrein og hafa verið tilbúin að gera sitt og móta þá umgjörð sem þarf til að vaxa með. Hér er um að ræða uppbyggingu á hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla. Í mörg ár hafa sveitarfélögin kallað eftir meiri skýrleika í lögum og reglum og að stjórnvöld fari að yfirfara laga- og reglugerðraumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um þetta efni í nokkur þing í röð. Sú tillaga felur einfaldlega í sér að fela innviðaráðherra, fjármálaráðherra, efnahagsráðherra og matvælaráðherra að skipa starfshóp til að yfirfara laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi.

Virðulegi forseti. Það er erfitt að byggja upp traust þegar leikreglur eru ekki skýrar, en það er vilji beggja aðila og því verða stjórnvöld að haska sér við verkið. Á vorþingi 2021 kom innviðaráðherra fram með frumvarp um breytingar á hafnalögum. Þar voru tillögur sem byggja undir að sveitarfélög geti sett inn í sína gjaldskrá aflagjöld af eldisfiski. Það náði ekki fram að ganga. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er boðað að hafnalög verði sett aftur á dagskrá á næstu vikum og er það vel. Vonandi verður unnið með þau hratt og vel í gegnum þingið.