154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Við lifum á viðsjárverðum tímum. Ekki hefur verið ófriðvænlegra í heiminum síðan um miðjan níunda áratuginn og bjartsýnin sem ríkti við lok kalda stríðsins er löngu horfin út í veður og vind. Þótt átökin á Gaza hafi átt athygli umheimsins undanfarið mallar stríðið í Úkraínu áfram auk fjölda annarra staðbundinna átaka sem minni athygli hafa fengið í fjölmiðlum í okkar heimshluta, alltaf með miklum hörmungum fyrir líf almennra borgara. Við Íslendingar erum lánsöm að hér hefur verið friðvænlegt lengi og að þau stríð sem ollu mestu hamförum 20. aldarinnar höfðu takmörkuð áhrif hér á landi, a.m.k. ef horft er á þær afleiðingar sem oftast eru tengdar vopnuðum átökum. En það má líka heimfæra þessa reynslu á vissan hátt upp á nágrannalöndin því að við höfum búið við mjög langt friðartímabil í Vestur-Evrópu og þær kynslóðir sem upplifðu síðari heimsstyrjöldina eru nú óðum að hverfa yfir móðuna miklu.

Það sækir að manni dálítill uggur í því sambandi að lærdómar stríðsins, sem eftirstríðsárakynslóðirnar gerðu mikið í því að varðveittust og settu m.a. á fót Sameinuðu þjóðirnar til að tryggja heimsfriðinn, hverfi líka. Í því sambandi er rétt að muna skilaboð Stefans Zweigs í bók hans Veröld sem var, um að hið stöðuga samfélag sem maður býr í og heldur að muni endast að eilífu getur horfið í einni svipan. Zweig var austurrískur gyðingur og alinn upp í velmegandi fjölskyldu í Vínarborg í lok 19. aldar. Heimsmynd hans snerist á hvolf í heimsstyrjöldunum miklu og batt hann enda á líf sitt í útlegð í Suður-Ameríku um miðbik síðara stríðs, búinn á líkama og sál, búinn að missa trúna á mannkynið.

Í þessu sambandi er rétt að muna að lýðræði, mannréttindi, kvenfrelsi og fjölbreytileiki er engan veginn sjálfsagður hlutur. Sífellt færri ríki heims búa við þessi auðæfi sem við höfum vanist að taka sem sjálfsögðum hlut og sjálfgefnum réttindum. Um þau gildi og réttindi þarf að standa vörð. Það getur haft alvarlegar afleiðingar að sofna á þeim verði og freistast til að loka augunum fyrir því þegar gefur á bátinn í varðstöðunni.