154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:00]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp. Þetta er stærsta áskorunin sem við búum við og þess vegna er meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, m.a. í ríkisfjármálunum og fjárlögum næsta árs, að halda sig við það að þau séu aðhaldssöm, að ná fram þeim árangri að verðbólga fari niður. Það er bara langmikilvægasti þátturinn í því að öll stefnan næstu 15 árin verði að veruleika. Þetta er langhlaup, það er erfitt að ná fram jafnvægi. Fyrsta skrefið er að setja fram heildstæða stefnu og aðgerðir í því ljósi og þannig mun maður hafa þá nægjanlegan fyrirsjáanleika til að komast þangað. En ég vil segja: Við erum með tæki í þessari stefnu til að bregðast við þessum vanda. Í ár er verið að byggja 800 íbúðir í þessu kerfi þar sem við erum að taka hér þátt með stofnframlögum eða hlutdeildarlánum. Á næstu tveimur árum verða 1.000 íbúðir byggðar hvort árið, þ.e. 2.800 íbúðir á þessum þremur árum. Þessar 2.800 íbúðir yrðu ekki byggðar ef við værum ekki að koma til móts við fólk. Markaðurinn myndi ekki byggja fyrir fyrstu kaupendur eða lágtekjufólk á þennan hátt, þannig að stefnan er byrjuð að virka.