154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að ræða lítillega húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Í andsvörunum áðan ræddi ég við hæstv. ráðherra hins vegar um leigu og aðgerðir til að bæta réttarstöðu leigjenda og það var kannski hálfgerð heimtufrekja í mér að biðja hann að útskýra hugtak eins og leiguteygja sem ekki var í frumvarpinu eða þingsályktunartillögunni og hefði auðvitað átt að taka það fram að þetta er hugtak sem hann notaði í ræðu 30. maí í vor þegar hann var einmitt að tala um leigumálin. En látum það vera. Það á auðvitað ekki að þurfa að taka það fram að húsnæði er ekki lúxus sem á einungis að standa vel stæðu fólki til boða. Þvert á móti er þetta grunnþörf hverrar manneskju, ekki einungis til að skýla sér fyrir veðri og vindum heldur er tryggt húsnæði staður sem skapar einstaklingum og fjölskyldum öryggi og við köllum það nú í daglegu máli heimili.

Stefnan sem hér er lögð fram er að mörgu leyti ágæt en hún er sett fram við afar snúnar og sérstakar aðstæður. Í fyrsta lagi hefur lengi legið fyrir vöntun á húsnæði og uppbygging þess hefur verið býsna brokkgeng síðustu árin. Hún hefur fyrst og fremst ráðist af markaðsaðstæðum verktaka hverju sinni sem eru ólíkar frá ári til árs í mjög sveiflukenndu hagkerfi. Þátttaka hins opinbera var lengst af lítil eftir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lögðu niður félagslega húsnæðiskerfið og hefur að mestu leyti verið borin uppi af einstökum sveitarfélögum. Fæst hafa reyndar risið undir þeirri ábyrgð þegar frá eru skilin Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður og einhver fleiri. Það voru vissulega stigin ákveðin framfaraskref með almenna íbúðakerfinu og þakka ber bæði stjórnvöldum en ekki síst verkalýðshreyfingunni fyrir það framtak. Það hefur þó ekki verið nógu góður framgangur í því verkefni og okkur vantar tilfinnanlega á markaðinn aðila sem getur hugsað til mjög langs tíma, fjárfest til mjög langs tíma og annað þörf þvert á og þrátt fyrir hæðir og lægðir í efnahagslífinu.

Í öðru lagi bætist ofan á þetta fólksfjölgunin, sem var rædd hérna í andsvörum áðan, fyrst og fremst vegna aðflutts vinnuafls sem hefur borið uppi mannaflsfrekar greinar í þjónustu og nú bætist á auðvitað áfall vegna hryllilegra náttúruhamfara sem hafa leitt til þess að tæplega 4.000 manns hafa þurft að flýja frá heimili sínu. Það er óvíst hvenær það fólk getur flutt til baka og ómögulegt og ekki í boði að gera ekki ráð fyrir öðru en að útvega því fólki húsnæði eins og ég held að allir hér séu sammála um.

En í þriðja lagi, og kannski það sem gerir hlutina flókna, þarf þessi mikla þörf á húsnæðisuppbyggingu núna að eiga sér stað í mikilli þenslu í efnahagslífinu og það sést best á því að í sömu viku og hæstv. innviðaráðherra tilkynnti í vor á blaðamannafundi um uppbyggingu 35.000 nýrra íbúða á næstu tíu árum þá dreifði fjármálaráðherra nýrri fjármálaáætlun en þar voru m.a. aðgerðir sem beinlínis voru ætlaðar til að draga úr umsvifum í byggingariðnaði. Ríkisstjórn sem er ekki tilbúin til að forgangsraða og skilgreina þau verkefni sem verður að fara í og neitar á sama tíma að taka á þenslunni þar sem þenslan er lendir óhjákvæmilega í þessari stöðu, að gefa sífellt í og úr. Með öðrum orðum, þetta er gott dæmi um það þegar hægri höndin gerir eitt en sú vinstri annað.

Þetta sést líka skýrt þegar rammasamningurinn um húsnæðisuppbyggingu til tíu ára, sem undirritaður var 12. júlí, er skoðaður. Aðilar að honum eru innviðaráðuneytið, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum. Í rammasamningnum kemur fram áætlun á landsvísu um byggingu 4.000 íbúða árlega á næstu fimm árum og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár eftir það til að mæta áætlaðri þörf fyrir íbúðarhúsnæði.“

Sem sagt 37.500 íbúðir á næstu tíu árum. Þetta er sannarlega mikilvægt og þarft markmið en nú, þegar litið er rúmu ári seinna, virðist metnaðurinn eitthvað aðeins vera farinn að dvína því í töflunni í blábyrjun þingsályktunartillögunnar er beinlínis grafið undan rammasamningnum um húsnæðismál. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sem sagt metið það svo að til að efna rammasamninginn þurfi stofnframlög frá ríkinu að vera samtals 44 milljarðar kr. frá 2024–2028 en ríkisstjórnin stefnir að því að það verði 22 milljarðar, lækki um helming strax árið 2025. Og, herra forseti, þetta er meira að segja viðurkennt í greinargerðinni, með leyfi:

„Umræddar fjárheimildir eru talsvert undir því sem þyrfti að vera ef rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á árunum 2023–2032 gengi að öllu leyti eftir, en þar er gert ráð fyrir að byggðar verði 35.000 nýjar íbúðir á næstu 10 árum og að hlutfall nýrra íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði verði að jafnaði um 30%.“

Herra forseti. Það er auðvitað sorglegt að markmið rammasamnings skuli ekki vera að nást á þessu tímabili og það bólar lítið á samningum við önnur sveitarfélög en Reykjavík og Vík í Mýrdal og væri gaman að heyra ráðherra segja okkur aðeins frá því hvernig gangi að ræða við önnur sveitarfélög. En í stefnunni er aðeins komið inn á með hvaða hætti er hægt að auka hlutdeild leiguíbúða en hún hefur verið með því minnsta sem þekkist í okkar heimshluta. Það er t.d. talað um að lífeyrissjóðunum verði gert kleift að koma að uppbyggingu leiguíbúða með fjármögnun og aðkomu að eignarhaldi húsnæðisfélaga og í því sambandi sakna ég þess að ríkisstjórnin komi núna með húsaleigulög til þingsins sem tryggja betur réttindi leigjenda. Það er gott að heyra hæstv. ráðherra tilkynna að það verði afgreitt úr ríkisstjórn á föstudaginn.

Hæstv. ráðherra talaði um að hann væri meira fyrir að halda sig við raunveruleikann þegar kemur að uppbyggingu húsnæðis. En það er margt ansi þokukennt í þessari stefnu. Ég spyr t.d.: Hvernig samræmist það metnaðinum sem settur er þarna á blað að á sama tíma nánast, fyrir nokkrum árum, hafi sömu ríkisstjórnarflokkar lagt niður opinberar byggingarrannsóknir? Það er talað um að áhersla verði lögð á gæði, grunngæði íbúðarhúsnæðis verði höfð að leiðarljósi í allri hönnun, til að mynda öryggi, dagsbirta, hreint loft, góð hljóðvist, aðgengi, gott skipulag og skilvirkni og að húsnæði uppfylli rýmisþörf til daglegra athafna. Það á að stuðla að nýsköpun, rannsóknum og þróun, m.a. við hönnun til að draga úr kolefnislosun. Þetta eru skynsamleg og nauðsynleg markmið. En þau samrýmast því ekki að vera búin að leggja af opinberar byggingarrannsóknir í landinu og þó að vissulega hafi verið settir aurar í samkeppnissjóði þá er í fyrsta lagi ekki mjög skýr leiðbeining um það með hvaða hætti niðurstöður þeirra nýtist almennt við hönnun og byggingu húsnæðis og fyrir utan það eru fjármunirnir sem fara í það, bara til að setja þetta í samhengi, svipaðir eða heldur minni heldur en stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins fær í fjölmiðlastyrk núna nýverið. Og þá er ég ekki að draga úr mikilvægi þess að styðja frjálsa fjölmiðlun.

Herra forseti. Þetta er nauðsynlegt plagg og það ber að virða. Það er gott að setja fram stefnu. En það þurfa að fylgja aðgerðir sem þurfa að vera í takt við stefnuna. Það er bara því miður margt í okkar núverandi umgjörð og regluverki, lagaumhverfi, sem styður ekki við þessi göfugu markmið. Þess vegna er það von mín að Alþingi taki þetta mál nú til umfjöllunar, snikki það aðeins til þannig að það verði í raun stefna og aðgerðaáætlun sem við þurfum svo sannarlega á að halda til að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði í landinu.