154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vildi bara koma hér upp í örstutta ræðu til þess að fagna því að þessi stefna sé komin fram. Húsnæðismál eru meðal þess stóra sem brenna á landsmönnum og það er mikilvægt að sjá fram á stefnumótun fram í tímann. Við vitum að húsnæðismál eru einn af lykilþáttunum í því að hér ríki velferð og að fólk hafi það gott, það byggir á því að hér sé húsnæðisöryggi. Ég veit það og treysti að sú þingnefnd sem fær þetta til meðhöndlunar muni kafa ofan í alla þætti áætlunarinnar og skoða hvort þar séu einhverjar skrúfur sem þarf að herða eitthvað betur.

Mig langaði í því samhengi að vekja sérstaklega máls á aðgengismálum vegna þess að mér hefur fundist allt of oft hér í þessum þingsal og eins í almennri umræðu úti í samfélaginu menn tala mjög um það að við þurfum að gera betur þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks. Það er svo sannarlega rétt að margt er verið að gera gott en það er líka margt sem þarf að gera betur. En það er þá yfirleitt talað um það í einhverjum sértækum málum, sem auðvitað skipta öll máli, svo sem notendastýrð persónuleg aðstoð. Já, ég er alveg hjartanlega sammála því að það er gríðarlega mikilvæg þjónusta sem hefur fest sig í sessi og hefur sýnt fram á hversu mikið hún eykur lífsgæði fólks. Eða þá að það er talað um þessi mál í öðrum svona niðurhólfuðum umræðum. Svo er hins vegar í öðrum umræðum mjög oft talað um að það þurfi að einfalda regluverk og mjög oft litið til þess að m.a. að byggingarreglugerðir séu íþyngjandi.

Frú forseti. Hér fara bara ekki saman hljóð og mynd ef fólki er í alvörunni umhugað um það að bæta stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu, og raunar líka að bæta stöðu eldra fólks í samfélaginu, því að staðreyndin er einfaldlega sú að það er ekki skortur á óaðgengilegu húsnæði. Það held ég að við vitum öll, eins og átak eins og Römpum upp Reykjavík og Römpum upp Ísland hafa algerlega bent á. En þar erum við samt bara tala um opinbert húsnæði, ekki allt hið óaðgengilega íbúðarhúsnæði sem er að finna um allt land og gerir það að verkum að fólk sem fatlast, verður fyrir slysi eða er með sjúkdóma sem breyta líkamlegri getu þess, eða eldra fólk, sem vegna minnkandi líkamlegrar getu, sem tengist því einfaldlega að lifa lengur, getur ekki búið heima hjá sér og verður að flytja og á í erfiðleikum með að finna húsnæði sem hentar. Jafnvel þannig að það þarf að fara út í sérgreindar lausnir í húsnæðismálum fyrir þetta fólk. Þetta er í algerri andstöðu við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem gerir ráð fyrir því að fatlað fólk búi í almennu húsnæði í jafn ríkum mæli og annað fólk og mögulega er hægt.

Mig langar þess vegna að brýna þingið í því að hugsa þessi mál í samhengi og muna það að málefni fatlaðs fólks eiga að heyra undir alla málaflokka, ekki bara þegar við tölum um einhver tiltekin sérgreind mál, vegna þess að þegar upp er staðið er fatlað fólk fólk og það á að búa við sama öryggi í þessu samfélagi og öll hin. Mér finnst mikilvægt að það komi fram í umræðu um húsnæðismál til framtíðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)