154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 er áhugavert plagg. Þar segir að húsnæðisstefna „taki mið af og verði hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, húsnæðismálum, skipulagsmálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga“ og taki mið af samþykktum og stefnu stjórnvalda á öllum málefnasviðum.

Hér er nánast verið að gleypa hval, svo ekki sé meira sagt. Hér er verið að líta til gríðarlega mikilvægra málaflokka og stórra málaflokka. Það þarf að horfa á þetta mjög, mjög breitt: Skipulagsmál, samgöngumál, byggðamál, málefni sveitarfélaga og húsnæðismál. Þetta er vissulega metnaðarfullt plagg og sagt að það sé sameiginleg framtíðarsýn og meginmarkmiðin í stefnu innviðaráðuneytisins að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Þetta er allt gott og blessað, en ef við horfum t.d. á öflug sveitarfélög, tökum það bara sérstaklega út, þá erum við með sveitarfélög í landinu þar sem eru um 130.000 íbúar í 400.000 manna samfélagi. Við erum líka með sveitarfélag þar sem eru 43 einstaklingar þannig að við erum með sveitarfélög sem eru alveg gríðarlega ólík og því miður eru þau allt of mörg enn þá. En það eru teikn um það að það séu sameiningar í gangi, eins og Vesturbyggð og Tálknafjörður og Skorradalshreppur sem ætlar vonandi að sameinast Borgarbyggð. Staðreyndin er að við verðum ekki með öflug sveitarfélög nema þeim fækki og það mun kalla á að við verðum með fjölkjarna sveitarfélög. Þá verðum við að vera með öflugar samgöngur innan sveitarfélaganna.

Varðandi trausta og örugga innviði þá er það líka göfugt markmið en fyrir þingmann sem kemur frá Norðvesturkjördæmi og horfir á að vegasamgöngur t.d. á Vestfjörðum hafa dregist aftur úr — það er ákveðin innviðaskuld þar, klárlega, sem er jú verið að greiða upp að hluta með Dynjandisheiði og veginum um Gufufjörð og Djúpafjörð, að ógleymdum Skógarstrandarvegi sem er eini stofnvegur landsins sem er ómalbikaður, ekki með bundið slitlag. Það er enn langt í land að við náum þessum markmiðum um öflug sveitarfélög og trausta innviði. Verðmætasköpun t.d. á Vestfjörðum er búin að stóraukast og innviðirnir þurfa að fylgja með.

Lykilviðfangsefni þessarar húsnæðisstefnu koma fram í tillögunni: Stöðugleiki á húsnæðismarkaði, skilvirk stjórnsýsla, húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum með félagslegum jöfnuði og blöndun byggðar, sérhæfðar lausnir til að mæta áskorunum á landsbyggðinni og markviss húsnæðisstuðningur sem er afmarkaður við þá sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði. Svo er talað um bætta réttarstöðu og 8. atriðið er sjálfbær þróun. Mig langar að staldra við nokkur af þessum markmiðum sem hér eru sett fram og ræða þau.

Markmiðinu um að jafnvægi verði náð á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf verður einungis mætt með því að fjölga íbúðum, fjölga húsbyggingum, auka framboðið vegna þess að eftirspurnin er mikil. Ég á sæti í fjárlaganefnd og þar hefur komið fram að okkur fjölgar um 1.000 manns á mánuði. Það hefur verið þannig síðustu 12–13 mánuði, 1.000 manns á mánuði. Allt þetta fólk þarf húsnæði. Og núna er 4.000 manna byggðarlag, Grindavík — við erum með flóttamenn í eigin landi. Þau hafa þurft að flýja heimili sín eins og átti sér stað í janúar 1973 þegar Vestmannaeyingar þurftu að fara upp á fastalandið eina nóttina. Ég var þá þriggja ára barn. Og núna erum við raunverulega með 4.000 íbúa Grindavíkur sem flóttamenn í eigin landi og þetta fólk þarf allt húsnæði. Þetta kallar alveg klárlega á aukið framboð á húsnæði. Þannig að við erum ekki að fara að ná þessu jafnvægi í bráð, á næstu árum. Við vonum að sjálfsögðu að Grindvíkingar geti farið aftur til síns heima og það verði ekki af þessu eldgosi.

Skilvirk stjórnsýsla er að sjálfsögðu mikilvæg og að landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti og að við höfum öll aðgengi að öruggu og góðu húsnæði. Það er göfugt markmið líka. Þetta eru allt markmið sem stjórnvöld eiga að stefna að, en hvernig við förum að því? Vissulega er hér aðgerðaáætlun sem er mjög áhugaverð og mikilvæg. Ef við skoðum áherslurnar um að ná þessu jafnvægi þá er t.d. talað um að lífeyrissjóðum verði gert kleift að koma að uppbyggingu leiguíbúða með fjármögnun og aðkomu að eignarhaldi húsnæðisfélaga, svo sem leigufélaga, þróunarfélaga, húsnæðissamvinnufélaga o.fl.

Þetta er vissulega mikilvægt. Lífeyrissjóðir bjóða að sjálfsögðu lán til húsnæðiskaupa, verðtryggð lán yfirleitt. Þú getur náttúrlega líka tekið óverðtryggt lán. En ég hef haldið því fram, og ég er ekki einn á þeirri skoðun, ég man að eigandi Góu hefur verið mikill talsmaður þessa, að lífeyrissjóðirnir komi með beinni hætti að uppbyggingu húsnæðis sem þeir selji síðan á markaði. Það kemur ekki fram hér en það mætti vera þarna. Kannski er það undir heitinu þróunarfélag eða húsnæðissamvinnufélag. En það er gríðarlega mikilvægt að lífeyrissjóðirnir komi af öflugum krafti inn á húsnæðismarkaðinn með allt sitt fé og það er góð ávöxtun á peningunum þar.

Einnig kemur fram að íbúðir sem ekki eru nýttar til fastrar búsetu verði nýttar sem slíkar. Það er vissulega mikilvægt. En núna undanfarin ár, eiginlega frá hruni, í ferðamannastrauminum öllum, sérstaklega á þeim árum þegar hótelskortur var í landinu, þá voru skammtímaleigurnar, sérstaklega Airbnb, að taka við kúnnum. Við hefðum ekki getað tekið á móti jafn mörgum ferðamönnum ef þessi valkostur hefði ekki verið fyrir ferðamenn. Þetta er raunhæfur valkostur fyrir ferðamenn og líka fyrir Íslendinga sem fara til útlanda og eins hér á landi. En það er mikilvægt að við notum húsnæði í deilihagkerfinu, að við séum ekki í skammtímaleigu með húsnæði sem ætlað er til fastrar búsetu, að það séu raunverulega hótel. Að einstaklingar og lögaðilar séu að leigja út fjölda, jafnvel tugi íbúða í gegnum skammtímaleigu er hótelrekstur, það er ekki skammtímaleiga. Það er ekki hluti af deilihagkerfinu. Deilihagkerfið er þannig að þú býrð þínu húsnæði, leigir það út þegar þú ert í fríi eða erlendis og átt kannski aukaherbergi til að leigja. Það er deilihagkerfið. Við þurfum að taka deilihagkerfinu fagnandi hvað þetta varðar. Og að sjálfsögðu á að skattleggja það eins og annað.

Stuðlað verði að því að skilvirkni verði í mannvirkjagerð, sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. En það breytir því ekki að þar er byggingarreglugerðin undir. Ég var lögfræðingur á Skipulagsstofnun og þá var verið að endurskoða byggingarreglugerðina. Það eru gríðarlegir hagsmunir í því plaggi, gríðarlegir hagsmunir.

Varðandi skilvirkni og gæði húsnæðis og jafnvægi við umhverfið þá sé ég hér taldar upp áherslur til að ná því markmiði. Það er t.d. talað um að það verði unnið að því markmiði í samræmi við loftslagsmarkmið, með rekjanleika, samhæfingu og öðru slíku og á grundvelli orkuútreikninga og með endurnotkun byggingarvara.

En við þurfum líka að huga að öryggi húsnæðis. Við búum svo vel á Íslandi að við gerum það miklar kröfur til húsnæðis, með járnabindingar og annað, að þær standast núna og hafa staðist jarðskjálfta og náttúruhamfarir og það er mjög mikilvægt að við leggjum áherslu á öryggi húsnæðis. Ég hef ekki séð þess sérstaklega getið en ég treysti á að haldið verði utan um þetta atriði, að við búum í mjög sérstöku landi hvað varðar jarðumbrot. Það er vissulega mikið fjallað hérna um kolefnislosun vegna mannvirkja og orkunýtingu sem er mjög mikilvæg, en þetta er grundvallaratriðið, öryggi húsnæðis. Jú, það er sérstakt markmið varðandi húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum en ég sé ekki að sérstaklega sé tekið tillit til þess atriðis sem varðar jarðskjálfta og annað slíkt. Það mætti vera þarna sérstaklega. Það kemur þá kannski fram í nefnd.

Varðandi mælikvarðana sem ná yfir markmið um húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum þá er talað um hlutfall leigjenda og íbúðareiganda sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað eftir tekjufimmtungum. Það eru mælikvarðarnir. Ég tel að þarna eigum við ekkert að tala um tekjufimmtunga heldur tekjutíundir. Það er of mikið að tala um 20% hluta íbúanna. Það ætti að taka allt að 10%. Eins varðandi hlutfall íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði af íbúðastofninum á landsvísu og greint niður á landshluta sem og eftir tegund húsnæðisstuðnings, að það verði mælikvarði. Og þar er að sjálfsögðu mikilvægt að landsbyggðin sé undir. (Forseti hringir.)

Ég er því miður búinn með tímann minn, ég ætlaði að fara að tala um aðgengi til allra en ég geri það í seinni ræðu.