154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

dreifing starfa.

453. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ekki síst fyrir góð orð í garð þessarar tillögu sem gefur mér væntingar um að því verði vel tekið og þetta verði að veruleika, samþykkt hér eftir meðferð nefndar. Spurningin sem hv. þingmaður kom fram með er mjög áhugaverð, þ.e. hvaða áhrif þetta hefur þegar farið er að skrá niður raunverulega starfsstöð einstaka starfsmanns hjá einstaka fyrirtæki, og ef ég skildi spurninguna rétt hvort það þýði þá að það sveitarfélag þar sem viðkomandi starfsmaður hefur heimilisfesti geti innheimt útsvarið. Ég get mjög auðveldlega séð fyrir mér að það verði afleiðingin af þessu. Ég viðurkenni að þetta er ekki hlutur sem við höfum hugsað í þaula heldur skilið eftir í höndum starfshópsins. En auðvitað er það hluti af stöðu sveitarfélaga líka þetta vanmat raunverulega á fjölda þeirra starfa sem unninn er í hverju sveitarfélagi. Þannig að þarna kemur þá raunveruleg staða í ljós og á að vera styrkur sveitarfélaganna til viðbótar við það að hafa áhrif á uppbyggingu mjög víða. Þetta er bara svo mikil grundvallarspurning, hvernig við ætlum að fara með þessa hluti, og lykillinn að því er náttúrlega fyrst og fremst að þessar upplýsingar liggi fyrir og séu rétt skráðar niður. Ég held að það verði virkilega spennandi að fylgjast með þessu. Það er efnahags- og viðskiptanefnd sem fær málið til umfjöllunar og tekur þetta alveg klárlega með í reikninginn.