154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

sjúkrahúsinu á Akureyri verði gert kleift að framkvæma hjartaþræðingar.

384. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að sjúkrahúsið á Akureyri verði gert kleift að framkvæma hjartaþræðingar. eins og hér kom fram í kynningu. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Dagbjört Hákonardóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Bergþór Ólason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Inga Sæland, Ingibjörg Ísaksen, Jakob Frímann Magnússon, Jódís Skúladóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Stefán Vagn Stefánsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson. Þetta eru með öðrum orðum 21 þingmaður eða þriðjungur þingheims sem koma úr öllum flokkum og allir þingmenn Norðausturkjördæmis.

Þingsályktunartillagan hljómar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja þegar í stað vinnu við að gera Sjúkrahúsinu á Akureyri kleift að framkvæma hjartaþræðingar.“

Fyrir tillögunni eru ýmsar ástæður og aðdragandinn u.þ.b. eftirfarandi: Eitt af markmiðum í framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri til ársins 2021 var að taka upp hjartaþræðingar við sjúkrahúsið. Árið 2018 var sjúkrahúsinu veittur styrkur til að kanna fýsileika þess og ári síðar lágu niðurstöður fýsileikakönnunarinnar fyrir og voru gefnar út í skýrslu sem unnin var af sænska heilbrigðisráðgjafafyrirtækinu Sirona Health Solutions. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru að ákjósanlegt væri að taka upp hjartaþræðingar við sjúkrahúsið. Það myndi auka jöfnuð og aðgengi að meðferðum við hjartasjúkdómum á Íslandi og styrkja heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi en nauðsynlegt væri að tryggja samstarf við Landspítala og erlent hátæknisjúkrahús til að tryggja gæði meðferðar. Aðstaða til hjartaþræðinga á sjúkrahúsinu myndi jafnframt auka getu þess sem varasjúkrahúss á Íslandi. Skýrslan var kynnt fyrir ráðuneytinu haustið 2019 en engin formleg viðbrögð bárust við skýrslunni frá ráðuneytinu. Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru var verkefnið lagt til hliðar þrátt fyrir margvísleg rök fyrir því að taka upp hjartaþræðingar á sjúkrahúsinu.

Verði þræðingar teknar upp á sjúkrahúsinu á Akureyri má leiða líkur að því að þörf fyrir sjúkraflug minnki talsvert sem og sá kostnaður sem fellur til vegna ferða og dvalarkostnaðar sjúklings og aðstandenda sem í mörgum tilfellum fellur a.m.k. að hluta til á einstaklingana sjálfra. Þá má leiða líkur að því að íbúar á upptökusvæði kæmust mun fyrr í hjartaþræðingu sem auka batalíkur til muna og auðvitað lífsgæði sjúklinga og þannig mætti lækka afleiddan kostnað einstaklinga og ríkis í kjölfar hjartaáfalls. Þá eru aðgerðir af þessu tagi sem fara fram utan Reykjavíkur liður í að auka lífsgæði fleiri landsmanna og færa heilbrigðisþjónustu nær því að jafna aðstöðu allra landsmanna líkt og kveður á um í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Þess vegna telja flutningsmenn þessarar tillögu mikilvægt að hefja undirbúning að því að gera sjúkrahúsinu á Akureyri kleift að framkvæma hjartaþræðingar sem fyrst.

Frú forseti. Þótt málið sé fyrst og fremst heilbrigðismál skipta aðrir hlutir í því gríðarlega miklu máli. Við Íslendingar höfum síðustu 120 ár upplifað byggðaþróun sem er að mörgu leyti einstök, a.m.k. fágæt. Í aðdraganda þess að fullveldisdraumar okkar rættust var flestum ljóst að þessi fámenna þjóð í risastóru landi yrði að eiga sér höfuðborg. Þess vegna voru teknar ákvarðanir um það að lykilmenntastofnanir, lykilheilbrigðisstofnanir, löggjafinn, dómsvaldið og ótal menningarstofnanir yrðu staðsettar í Reykjavík. Það hefur haft það í för með sér að frá árinu 1900 hefur íbúum Reykjavíkur fjölgað úr 7% af landsmönnum í 35% og íbúum höfuðborgarsvæðisins úr 10% í 70%.

Það felast augljósir kostir í þessari ákvörðun á sínum tíma en öllum hlýtur að vera ljóst að það felast líka í þessu miklir gallar. Þetta hefur veikt stoðir samfélaganna úti á landi og þau hafa orðið fábreyttari. Þessir staðir hafa þurft að byggja mjög mikið á stórum og fyrirferðarmiklum greinum, svo sem landbúnaði og sjávarútvegi og nú síðast, eins og við þekkjum frá Vesturlandi og Austurlandi, fiskeldi sem mikill ágreiningur hefur verið um. Það eru ýmsir sem leggjast gegn greininni en segjast þó skilja atvinnuvinkil heimafólks, segja að það verði bara að skapa fjölbreyttari störf á stöðunum. En spurningin er: Hvernig? Ef hið opinbera treystir sér ekki einu sinni til þess, getum við ætlast til þess að einkaaðilar geri það? Þessi tillaga er einmitt liður í því að auka fjölbreytnina.

Það sem þrátt fyrir allt hefur þó unnið með Norðlendingum er að Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið býr yfir talsvert meiri fjölbreytni heldur en margir aðrir staðir á landsbyggðinni. En þrátt fyrir það hefur Akureyri fallið úr því að vera annar stærsti bær landsins á nokkrum áratugum niður í að verða sá sjötti stærsti og mun síga mun neðar á næstu árum ef stjórnvöld þora ekki að ráðast í alvörubyggðaaðgerðir sem felast í því að veðja í auknum mæli á Akureyri og þannig í leiðinni á Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland allt svo að það geti myndað ákveðið mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

Frú forseti. Þetta er skynsamleg ráðstöfun því að Akureyri býr að mörgu leyti yfir borgareinkennum þótt íbúatalan styðji kannski ekki þá fullyrðingu. Það er rétt að minna á að fyrr á öldum voru lykilborgir Evrópu ekkert alltaf miklu stærri en Akureyri, enda var miklu fremur horft á það hvað einkenndi þessar borgir. Þær höfðu góðar hafnir eða lágu að öðru leyti vel við þekktum viðskiptaleiðum, þær höfðu háskóla, þær höfðu sjúkrahús, þær höfðu menningarstofnanir o.s.frv., alveg eins og Akureyri og ég hef stundum kallað þann litla bæ eins konar Bonsai-borg. Hún hefur allt, alla innviði, en hana skortir tilfinnanlega meiri fjölda. Auk þessa sem ég hef talið upp áður þá höfum við líka bætt við stórum, sæmilega stórum, flugvelli sem er meira að segja alþjóðlegur flugvöllur og við njótum þess líka að eiga öfluga og smærri bæi í nágrenninu, út allan Eyjafjörðinn og yfir í Þingeyjarsveit og jafnvel í Skagafjörðinn. Þess vegna er uppbygging á Sjúkrahúsinu á Akureyri alls ekki léttvægt mál. Það er auðvitað fyrst og fremst mannréttindamál að heilbrigðisþjónustan skuli vera góð um allt land. En þetta er líka lykilmál þegar kemur að því að styrkja landsbyggðirnar. Það er sanngirniskrafa landsbyggðarfólks að við njótum góðrar heilbrigðisþjónustu og það er getið um það í lögum. Það stuðlar að auknum lífsgæðum og lífslíkum og ég er sannfærður um að starfsfólk og stjórnendur Landspítala yrðu slíkri framkvæmd mjög fegnir vegna þess að sú merkilega og góða stofnun er undir miklu álagi nú þegar.

Að lokinni þessari umræðu, frú forseti, legg ég til að málið fari inn í velferðarnefnd og verði afgreitt þar vel og hratt og rati á endanum hér aftur inn í þingsal og loks í atkvæðagreiðslu. Ef meiri hluti þingheims greiðir atkvæði með tillögunni þá bíður hæstv. heilbrigðisráðherra ekkert annað en að ganga í málið og klára það.