154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir þetta en koma með aðeins annan vinkil á þetta. Hér hefur þingið verið starfhæft vegna þess að við höfum verið að ræða heilu og hálfu vikurnar þingmannamál sem fara svo inn í nefndir þar sem nógur tími hefur verið til að ræða þau. Í efnahags- og viðskiptanefnd t.d. er mál frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur um réttlæt græn umskipti. Það er fullrætt mál, það er tilbúið nefndarálit en það fæst ekki afgreitt af því að það liggur ekki fyrir eitthvert samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu. Hvar í reglum þingsins er það að það eigi að gera eitthvert slíkt samkomulag? Er það ekki þannig á eðlilegum vinnustöðum að á meðan það er rúm til að vinna þá vinna menn öll mikilvæg verk, hvaðan sem þau koma? Þetta er sóun á tíma og þetta er heimskulegt fyrirkomulag sem ég óska eftir að forseti beiti sér fyrir að breyta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)