154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Spurningin er náttúrlega hversu vel við getum treyst ríkisstjórn til að stýra landi ef hún getur ekki einu sinni stýrt því hvenær frumvörpin koma frá henni. Ríkisstjórn sem nær ekki að skila nema þriðjungi af því sem hún ætlar að gera á einu hausti, hvernig á hún að geta komið landinu í gegnum efnahagsþrengingar? Hvernig hún á að geta sinnt einhverjum stærri verkefnum ef hún ræður ekki einu sinni við ástandið heima hjá sér? Þetta er áhyggjuefni, ekki bara vegna þess að þetta skilur þingið eftir verkefnalaust heldur vegna þess að þetta sýnir hvað ríkisstjórnin er lítils megnug.

Ég heyri á hæstv. innviðaráðherra að honum þykir leiðinlegt að vera bendlaður við ráðherranna sem skila illa frá sér. Það er rétt að hæstv. innviðaráðherra hefur skilað fjöldanum en ég hræddur um að gæðin séu ekki alltaf eftir því. Tökum sem dæmi frumvarp um póstþjónustu sem var endurflutt hér í haust óbreytt þrátt fyrir að á það hafi verið bent (Forseti hringir.) að það væri ólíðandi að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. (Forseti hringir.) Óbreytt var það lagt fram án þessa sumarið hefði verið nýtt í að eiga þetta samráð. Svo þegar umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) neyðir ráðuneytið til að setjast niður með ÖÍB þá kemur í ljós að þau treysta sér bara ekki til að ljúka því verkefni (Forseti hringir.) á tilsettum tíma og þá er lagt til að klippa þá grein út úr frumvarpinu. (Forseti hringir.)

Ráðherrann skilaði málinu svo lélegu til þingsins (Forseti hringir.) að hann þarf að skera það í sundur til að ná að klára þann hluta sem við getum klárað án þess að brjóta á réttindum fatlaðs fólks. (Forseti hringir.) Stundum er betra að skila minna en gera það betur, hæstv. ráðherra.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á ræðutímann.)